Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Sest ekki í kviðdóm vegna eiginhandaráritunar

06.11.2018 - 21:46
Mynd með færslu
 Mynd: AP - US Law Enforcement
Enginn hefur enn verið skipaður í kviðdóm í New York yfir mexíkóska glæpaforingjanum Joaquin „El Chapo“ Guzman en búið er að ræða við 60 mögulega kviðdómendur. Af þeim hefur 27 verið hafnað, þar af var einum hafnað fyrir að biðja Guzman um eiginhandaráritun.

AFP segir að viðkomandi sé fæddur í Kólumbíu en hafi verið búsettur í New York undanfarin 20 ár. Hann hefði greint frá því að hann hefði verið meðvitaður um fíkniefnasmygl í heimabænum sínum í Kólumbíu, Medellin, sem einnig var heimabær Pablo Escobar. Hann sagðist einnig vera hrifinn af glæpasjónvarpsþáttaröðum en fullyrti að hann það myndi ekki hafa áhrif á dómgreind hans. Þegar hann var spurður út í ásakanir um að hann hefði nýverið beðið Guzman um eiginhandaráritun viðurkenndi hann það og sagðist vera svolítill aðdáandi hans. Verjandi Guzman vildi að hann fengi að sitja í kviðdómnum en saksóknari ekki svo hann var sendur heim. 

AFP segir að fimm mögulegir kviðdómarar hefðu lýst áhyggjum af öryggi sínu tækju þeir sæti í kviðdómi í réttarhöldunum. Ein þeirra var ung kona sem hefði grátið stjórnlaust og haft eftir móður sinni að þau yrðu að flytja ef hún yrði í kviðdóminum. AFP segir að Guzman hefði brugðist við með því að hlæja.

Aðrir sem hafi verið sendir heim hafi verið Michael Jackson eftirherma svo dæmi séu tekin.  

Tólf kviðdómendur verða valdir og sex til vara. Það kemur í þeirra hlut að ákvarða hvort Guzman, sem ákærður er fyrir að hafa um 25 ára skeið smyglað kókaíni til Bandaríkjanna, sé sekur eða saklaus af þeim ellefu ákæruliðum sem hann er ákærður fyrir.