
Sérsveitin kölluð út vegna fuglafælu
„Það er nákvæmlega þannig,“ segir Guðlaugur Kristófersson hjá Nesfiski aðspurður hvort aðgerðir sérsveitar í morgun tengdust fiskþurrkun á hjöllum fyrirtækisins.
„Við erum með gasbyssu og búnir að vera með til margra ára. Ég setti hana í gang í gær vegna ágangs fugls. Það varð til þess að sérsveitin var kölluð út.“
Guðlaugur segir það því hafa komið verulega á óvart þegar sérsveitin mætti á svæðið. „Þetta hefur ekki komið upp áður. Þetta kom verulega á óvart. Ætli við munum ekki koma til með að skoða verklagið út frá þessu,“ segir Guðlaugur.
Uppfært 11.36: samkvæmt tilkynningu frá lögreglu voru það lögreglumenn sem voru að störfum á svæðinu sem kölluð sérsveitina út þegar þeir heyrðu byssuhvelli.
Í tilkynningu lögreglu segir að lögreglumenn hafi verið að störfum á Garðvegi, skammt frá Garði, vegna mannlausrar bifreiðar sem var illa staðsett í vegarkanti. Þegar lögreglumennirnir urðu varir við skothvelli sem virtust koma frá fiskihjöllum skammt frá.
Í tilkynningunni segir að sérsveit ríkislögreglustjóra hafi verið stödd á æfingasvæði lögreglunnar á Keflavíkurflugvelli og var óskað eftir aðkomu hennar. Í ljós hafi komið að um var að ræða „hvellbyssur, sem settar höfðu verið upp við fiskihjallana, í því skyni að fæla burtu vargfugl.“
Lokanir lögreglu á Garðvegi stóðu yfir í um eina klukkustund.