Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Sérsveitarmenn um borð í þyrlu - Myndskeið

Mynd: RÚV / RÚV
TF-LÍF, þyrla Landhelgisgæslunnar, tók á loft frá Reykjavíkurflugvelli um klukkan hálftólf. Að sögn sjónarvotta, og eins og sjá má á meðfylgjandi myndskeiði, voru sérsveitarmenn frá lögreglunni um borð í vélinni sem og sigmaður, auk áhafnar. Heimildir fréttastofu herma að þyrlan sé á leið til móts við Polar Nanoq, grænlenskan togara, en samkvæmt tilkynningu frá útgerð togarans vill lögregla ná tali af einum eða fleiri úr áhöfn hans.

Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn, sagðist í samtali við fréttastofu ekki geta tjáð sig um hugsanlegar aðgerðir lögreglunnar í tengslum við rannsóknina á hvarfi Birnu Brjánsdóttur, tvítugrar stúlku sem ekkert hefur spurst til frá því á laugardagsmorgun. Hann vildi ekkert tjá sig um hvort sérsveitarmennirnir, sem eru um borð í þyrlunni, væru á vegum lögreglunnar eða hvort för þeirra tengdist rannsókn málsins.

Sveinn H. Guðmarsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, segist ekkert geta sagt um ferðir þyrlunnar. Hins vegar sé mannskapur frá gæslunni við leit í Hafnarfjarðarhöfn, það er kafarar og tveir bátar, Óðinn og sjómælingabáturinn Baldur. Engin ákvörðun hafi verið tekin um það hvort þyrlan verður notuð við leit í dag.