Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Sérstökum aflaheimildum senn úthlutað

Mynd með færslu
 Mynd:
Um næstu mánaðamót eiga að liggja fyrir samningar um úthlutun sérstakra aflaheimilda til sex byggðarlaga sem eiga í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi. Forstjóri Byggðastofnunar væntir þess að þannig megi tryggja heilsárs fiskvinnslu á þessum stöðum.

Það eru 1.800 þorskígildistonn sem Byggðastofnun hefur til ráðstöfunar til að styrkja byggðir í miklum vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi. Þessum kvóta verður úthlutað næstu þrjú árin. Mögulegt er að framlengja verkefnið um tvö ár til viðbótar. Aðalsteinn Þorsteinsson, forstjóri Byggðastofnunar, segir þetta byggja á samstarfi við fyrirtæki sem þegar hafi yfir aflaheimildum að ráða.

„Á móti framlagi Byggðastofnunar leggja útgerðir á stöðunum fram aflaheimlidir af sinni hálfu og skuldbinda sig til þess að ráðstafa þeim inn í fiskvinnslu á viðkomandi stað, með það að markmiði að treysta grundvöll undir heils árs fiskvinnslu á þessum stöðum,“ segir Aðalsteinn.

Hann bætir því við að um næstu mánaðamót verði væntanlega lokið samningum við fyrirtæki í sex byggðarlögum. Tálknafjörður, Suðureyri og Raufarhöfn fá 400 tonn hvert, Flateyri fær 300 tonn, 150 tonn fara á Drangsnes og 150 tonn á Bakkafjörð.

Breiðdalsvík var eitt þeirra byggðarlaga sem til greina komu í þessu sambandi. Eins og RÚV hefur greint frá var samstarfi þar hafnað því ekki reyndist á staðnum nægur kvóti til að leggja á móti þessum sérstöku aflaheimildum Byggðastofnunar.