
Sérstök áhersla á yngri innflytjendur
Sérstök áhersla var lögð á verkefni í þágu barna og ungmenna, auk rannsóknar- og þróunarverkefna sem tengjast virkri þátttöku innflytjenda og sýnileika þeirra. Nýmæli í áherslum sjóðsins var á verkefni sem tengjast vinnumarkaðsmálum innflytjenda og skilaði það sér í fjölgun umsókna þeim tengdum, segir á vef stjórnarráðsins. Alls bárust félagsmálaráðuneytinu 53 styrkumsóknir. Af þeim styrkjum sem voru veittir laut rúmlega helmingur að málefnum barna og fjölskyldna þeirra.
Hæstan styrk hlaut rannsókn greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins um fjölgun tilvísana á stöðina vegna barna af erlendum uppruna, í hverju hún felst og hvað veldur henni. Rannsóknin hlaut þriggja milljóna króna styrk. Tvö verkefni hlutu tvær og hálfa milljón króna, annars vegar vefnámskeið í íslensku fyrir snjalltæki ætlað fimm til sjö ára börnum á vegum Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum, og hins vegar þróunarverkefnið Tilsjón og Okkar mál á vegum Reykjavíkurborgar.