Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Sérstakur saksóknari fimm ára

15.01.2014 - 11:26
Mynd með færslu
 Mynd:
Á mánudag voru liðin fimm ár frá því að Björn Bjarnason dómsmálaráðherra skipaði Ólaf Þór Hauksson í embætti sérstaks saksóknara til að rannsaka grun um refsiverða háttsemi í kringum bankahrunið. Ólafur Þór fór yfir stöðuna í Morgunútvarpinu í morgun.

Sérstakur saksóknari hefur gefið út ákæru í á annan tug mála tengdum hruninu á síðustu árum. Þyngstu dómarnir hingað til féllu fyrir jól þegar fjórir sakborningar í Al-Thani málinu voru dæmdir í þriggja til fimm og hálfs árs fangelsi. Enn eru stór mál eftir en gert er ráð fyrir að ný stofnun taki yfir embætti sérstaks saksóknara á þessu ári. 

Ólafur sagði rannsókn mála á áætlun miðað við það sem lagt var upp með. Hann sagði embættið ekki hafa gengið of hart fram á sínum tíma með handtökum og gæsluvarðhaldsúrskurðum, þvert á móti hafi verið stigið hóflega til jarðar. Embættið hefur líka verið gagnrýnt fyrir að taka of langan tíma til að rannsaka mála. Menn hafi jafnvel verið með stöðu sakborninga um langa hríð áður en þeim sé tilkynnt hvort ákæra verði útgefin eða mál fellt niður. Ólafur segir þetta ekki taka lengri tíma en í nágrannalöndum okkar. Málin sem séu til rannsóknar séu flókin, það komi margir að þeim og því taki langan tíma að vinda ofan af þeim. Það sé alls ekki svo að menn fái stöðu sakborninga til gagngert til að búa til þrýsting. 

Hann gefur heldur ekki mikið fyrir gagnrýni lögmanna um að dómstólar láti almenningsálitið hafa áhrif á dómsniðurstöðu. Andrúmsloftið sé langt því frá jafn spennuþrungið og fyrst eftir hrun og dómarar hafi staðið í ístaðinu.