Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Sér ekki þá hættu skapast sem aðrir vara við

13.11.2018 - 20:39
Mynd: Skjáskot / RÚV
Guðni Jóhannesson orkumálastjóri segir að þriðji orkupakki Evrópusambandsins hafi ekki áhrif á orkusölu hérlendis þar sem hún sé nú þegar á frjálsum markaði. „Meðan við erum ekki tengd við önnur lönd hefur þetta ekki áhrif á flutning milli landa, því að er það sem málið snýst um.“ Hann sagðist ekki sjá þær hættur í málinu sem margir andstæðingar þriðja orkupakkans hafa varað við í umræðu um hann.

Guðni ræddi þriðja orkupakkann í Kastljósi í kvöld. Hérlendis er búið að aðskilja vinnslu og dreifingu og skapa samkeppnismarkað um orkuna samkvæmt fyrsta og öðrum orkupakka Evrópusambandsins. Þriðji pakkinn fjallar um sölu milli landa og rétt ACER til að úrskurða um deilumál vegna þessa.

Valdi ekki endilega verðhækkunum

Aðspurður hvort raforkuverð hækki til almennra neytenda og iðnfyrirtækja vegna þriðja orkupakkans svaraði Guðni: „Nei, ekki endilega. Vegna þess að það sem við stöndum frammi fyrir nú er að það er að sneiðast um alla kosti til þess að framleiða nýja orku á Íslandi. Það er kannski sú mesta ógn sem ég sé núna við stöðugleika á raforkumarkaðnum, að það geti orðið þrengsli hér, vegna þess að svo mikill hluti af okkar raforku er bundinn í stórum og löngum samningum.“ Hann segir að virkja verði meira hvort sem rafstrengur verður lagður til Evrópu eða ekki.

Markaðurinn er frjáls og fyrirtækin geta verðlagt orkuna eins og þeim þykir henta, segir Guðni aðspurður hvaða áhrif það hefði ef rafstrengur yrði lagður til útlanda, hvort hægt væri að hafa eitt verð fyrir almenning, annað fyrir iðnað hérlendis og hið þriðja fyrir erlendan markað.

Guðni var spurður hvort einhver leið væri til að koma í veg fyrir orkuverðshækkun hérlendis ef lagður yrði rafstrengur til útlanda.

„Ég held að orkufyrirtæki á Íslandi munu hækka verðið bæði til fyrirtækja og einstaklinga ef markaðsaðstæður skapast fyrir það.“

Eins og mikil eftirspurn utanfrá?

„Hún gæti verið utanfrá. Hún gæti líka verið fyrirtæki sem koma hingað og setja sig niður og keppa um það rafmagn sem er á markaðnum hér. Aðalatriðið er að skapa markaðsaðstæður þannig að hægt er að framleiða meira af orku inn á markaðinn þegar verðið hækkar.“

Guðni sagðist starfa eftir þeim lögum sem Alþingi setur í störfum sínum sem orkumálastjóri. „Ég verð að segja að um þetta hefur verið fjallað af fólki með mun öflugra hugmyndaflug en ég hef. Ég sé ekki þessar hættur sem skapast. Ég geti hins vegar ekki fjallað um eða tjáð mig um þau viðkvæmu lögfræðilegu atriði sem menn hafa verið að ræða um, það eru aðrir betur til þess fallnir heldur en ég.“

Óttast stjórnarskrárbrot með valdaframsali

Frosti Sigurjónsson, fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins, sagðist telja að löggjöfin samræmist ekki stjórnarskrá Íslands þar sem í henni sé að finna framsal á valdi sem stjórnarskráin leyfi ekki. Þetta væri líka vandamál í Noregi þar sem vandamál hefðu skapast vegna deilna um stjórnarskrárbrot. Þá sagði hann þriðja orkupakkann ekki taka mið af aðstæðum hérlendis. Hann sagði gott að segja hingað og ekki lengra áður en Evrópusambandið kæmi með fleiri orkupakka.

Skipti efnislega litlu máli fyrir Ísland

Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Miðflokksins, sagði að margbent hefði verið á að ekki væri hægt að halda áfram endalaust áfram með valdaafsal. „Hér er um að ræða pakka sem flestir segja að skipti okkur ekki voðalega miklu máli. Af hverju erum við þá að innleiða hann?“ Hann sagði rétt að finna aðrar lausnir frekar en að samþykkja pakkann. Höfnun hans myndi ekki marka endalok EES-samningsins.

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að ef málið snerist um fullveldisframsal og stjórnarskrá hefði ekki átt að samþykkja EES-samninginn fyrir 25 árum. Hún sagði að snúa mætti rökum Gunnars við, að ef þetta skipti Ísland litlu máli mætti spyrja hvers vegna ætti ekki að samþykkja það. Hún vísaði til stöðu Norðmanna þar sem þetta væri stórt mál fyrir þá og því hægt að standa með þeim.