Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Sér ekki eftir mótmælum við heimili Steinunnar

05.12.2017 - 06:54
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Lögmaðurinn Björn Þorri Viktorsson telur að það hafi ekki verið mistök að mótmæla við heimili Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur vorið 2010. „Það eru engin mistök að beita lýðræðislegum og stjórnarskrárvörðum réttindum til að mótmæla og tjá hug sinn,“ segir Björn Þorri í samtali við Fréttablaðið í dag.

Hann bætir því við að auðvitað hafi þó aldrei staðið til af hans hálfu að meiða nokkurn eða hafa jafngríðarleg áhrif á Steinunni og hún lýsir núna. Það komi honum á óvart og hafi ekki verið tilgangurinn með aðgerðunum. Björn Þorri minnir þó á að Steinunn Valdís hafi sagt af sér í kjölfar aðgerðanna og beðist afsökunar á því að hafa þegið háa styrki í prófkjörsbaráttu nokkrum árum áður. Að sumu leyti sé því verið að skrifa söguna upp á nýtt.

Steinunn Valdís lýsti því í Silfrinu á sunnudag að mótmælin hefðu haft mikil áhrif á hana, og ekki síður opinber skrif nafngreindra manna sem hvöttu aðra til að nauðga henni. Steinunn Valdís beygði af þegar hún rifjaði þessa atburði upp.

Mynd: RÚV / RÚV

Annar sem mótmælti við heimili Steinunnar Valdísar var Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís. Hann segir í Fréttablaðinu í dag að það hafi verið röng leið, hann hafi beðið hana afsökunar og mundi ekki gera þetta í dag.

Mótmælt var við heimili fleira stjórnmálafólks á þessum tíma, sem og áhrifafólks úr atvinnulífinu. Ragna Árnadóttir, sem var dómsmálaráðherra í tíð vinstristjórnarinnar eftir hrun, sagðist í viðtali í Kastljósi í gær hafa verið óttaslegin og niðurlægð þegar fólk safnaðist saman fyrir utan heimili hennar árið 2009.

Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV