Sendiráðið aðstoðaði álfyrirtækin

04.12.2010 - 19:00
Mynd með færslu
 Mynd:
Fulltrúar álfyrirtækja hér á landi þökkuðu bandaríska sendiráðinu fyrir að orkuskattur sem ríkisstjórnin lagði á raforku skyldi ekki verða hærri en raun bar vitni.

Sam Watson, sendifulltrúi bandaríkjanna hér á landi og staðgengill sendiherra, skrifar greinargerð um fyrirhugaðan orkuskatt stjórnvalda en greinargerðin er meðal þeirra skjala lekið hafa til Wikileaks. Í henni er gert grein framvindu mála en íslensk stjórnvöld ætluðu að hækka orkuskatta um eina króna á hverja kílówattstund. Þar kemur fram að slík fyrirætlan geti skaðað bandarísk álfyrirtæki sem starfa hér á landi og komið í veg fyrir að hingað sæki erlendir fjárfestar. Álfyrirtæki hafi áhyggjur af því að stjórnvöld vilji þau úr landi og nefnt sem dæmi að byggingu álvers við Helguvík hafi seinkað, ákvarðanir stjórnvalda hafi leitt til þess að ekkert verði af álveri á Bakka og spurning sé hvort verði af stækkun álversins í Straumsvík.


Segir Watson frá því að stjórnendur Alcoa og Century Aluminum hafi lýst yfir áhyggjum af orkuskattinum en hann geti haft slæm áhrif á fjárfestingar þeirra og dregið úr arðsemi fyrirtækjanna. Þá hafi stjórnendurnir kvartað undan því að ekkert samráð hafi verið haft við þá, þeir hafi fyrst heyrt af hækkununum í gegnum fjölmiðla.


Þessum áhyggjum hafi Watson komið til skila til íslenskra stjórnvalda meðal annars í samtölum við fjölmarga ráðherra. Þá hafi hann lagt áherslu á það við stjórnvöld að álfyrirtækin ættu aðkomu að ferlinu. Svo virðist, segir Watson, sem það hafi borið árangur, því fulltrúar álfyrirtækjanna sem áður höfðu lýst yfir gremju sinni við sendiráðið, hafi þakkað sendiráðinu fyrir aðkomu sína að málinu og að þeir hafi fengið að koma að samningaborðinu. Það hafi orðið til þess að orkuskatturinn varð 12 aurar á kílóvattsstund en ekki 1 króna eins og upphaflega stóð til.

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi