Sendir sjálfum sér hugmyndir á hverjum degi

Mynd: RÚV / RÚV

Sendir sjálfum sér hugmyndir á hverjum degi

24.10.2018 - 11:29

Höfundar

Tónlistarmaðurinn og ljóðskáldið Bubbi Morthens segir að þótt ljóðagerð og tónsmíðar falli af sama trénu, séu þetta hvor sín greinin og hvíli um leið hvor aðra. Bubbi frumflutti nýtt lag í Popplandi og er á leið í örtónleikaferð.

Bubbi Morthens heldur af stað í dag í örstutta tónleikaferð um nágrenni höfuðborgarinnar og býr sig um leið undir hina árlegu þorláksmessutónleika sína. Bubbi verður með lög og ljóð sín í farteskinu, prófar glænýtt efni auk þess að spila gamalt og gott. Talið berst strax að einu gömlu laganna sem leikið var í upphafi viðtals, Frelsarans slóð af plötunni Dögun frá 1987.

„Þetta lag á alltaf við. Það er staðreynd að menn misnota trúarbrögð æði mikið, og í gegnum tíðina þegar við skoðum styrjaldir, áður en mönnum var att út á blóðvöllinn, þá var prestur Þjóðverjamegin og prestur Frakka- og Bretamegin, báðir voru að segja að Guð væri með þeim í liði. Hins vegar það að trúa fyrir einstaklinginn, hvort sem þú ert búddisti eða eitthvað annað, það er bara geggjað. Sjálfur er ég trúaður en ég hef verið að færa mig yfir í búddisma. Kristin trú byggir mikið á búddismanum þannig þetta er ekki fjarri en aðalmálið er að heimurinn væri svo miklu betri ef þessi dásamlega klisja myndi virka; ást er allt sem þarf.“

Bubbi er eins og áður segir á leið í örtónleikaferð, 24.-27. október þar sem hann heimsækir tvær kirkjur og tvö félagsheimili. Í kvöld heimsækir Bubbi Fríkirkjuna í Hafnarfirði, svo er það kirkjan í Garðabæ, þá liggur leiðin í félagsheimilið í Mosfellsbæ og loks í félagsheimili Ungmennafélagsins Drengs í Kjós. „Ástæðan fyrir því að ég er að taka svona örtúr er til að raða saman þorláksmessuprógramminu. Svo er ég að setja sjálfan mig í gírinn. Ef þú æfir þig ekki þá skín það í gegn. Til dæmis þegar ég spila með Dimmu, við erum alltaf að spila sama efnið, en við förum í viku og æfum á hverjum einasta degi fyrir tónleika. Okkar mottó er þetta: Ef það kemur jarðskjálfti upp á sjö á richter munum við ekki missa úr takt.“ 

Tón- og ljóðskáldið Bubbi segir það ekki haldast í hendur að semja tónlist og ljóð, en það hvíli samt hvort annað. „Þetta er sama tréð, þú ert bara á annarri grein og það er aðeins öðruvísi ávextir. Ég er með 30 örugglega fullkláruð lög. Af þeim tek ég 10-12 sem fara á vínil eða Spotify. Ég sem á hverjum einasta degi. Hvern einasta dag vakna ég og sem. Stundum langar mig ekkert til þess. En þú byrjar bara á einni línu. Til dæmis þetta lag, byrjaði á skríða. Ég átti kunningja sem er ekki lengur á lífi, hann tók eigið líf þegar hann var að grilla sig endanlega. En maður verður bara að byrja, stundum gengur það rosa erfiðlega en stundum bara flæðir.“ 

En ritstjórinn Bubbi, hvernig fúnkerar hann? „Hann er orðinn frekari með árunum. Það eru margar ferðir með ruslið út í tunnu. Svo hendi ég í mig hugmyndum. Ég sendi sjálfum mér póst nánast daglega. Með hugmyndum að textum. Ég er að keyra og keyra út í kant þegar ég fæ hugmynd, hérna var hugmynd að ástartexta sem ég sendi mér í gær, vildi að ég væri orðinn blindur, ég ætla ekkert að segja út af hverju. Svo önnur hugmynd, svona virkar lýðræði. Svo kem ég heim og sest fyrir framan tölvuna, og þá triggerar það inn í lag.“