Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Sendinefnd FIFA væntanleg til Írans

12.09.2019 - 06:18
epa05517504 Players of the Iranian women's national soccer team before the friendly soccer match between Berlin Allstars and Iran for the 'Discover Football' festival at Willy-Kressmann Stadium in Berlin, Germany, 31 August 2016.  EPA/Sophia Kembowski
Leikmenn íranska kvennalandsliðsins í Berlín. Mynd: EPA
Sendinefnd á vegum Alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA, fer á næstunni til Írans. Þar verður athugað hvernig kröfu sambandsins um að leyfa konum að mæta á leiki í undankeppni heimsmeistaramótsins í fótbolta vindur fram.  Konum er bannaður aðgangur að íþróttaleikvöngum í Íran.

Ung kona, sem klæddi sig upp sem karlmaður, reyndi að komast á leik fyrr á árinu. Hún var handtekin fyrir og stungið í gæsluvarðhald. Hún kveikti í sér í síðustu viku, eftir að hún var dæmd til hálfs árs fangelsisvistar vegna málsins. Hún lést á mánudag.

Íran á næst leik gegn Kambódíu í undankeppni HM 10. október. AFP fréttastofan hefur eftir FIFA að sendinefndin fari til Írans á næstunni til þess að fylgjast með framvindunni. Engin dagsetning var gefin upp í svari FIFA. Samkvæmt heimildum AFP verður þriggja manna nefnd send til Írans, úr skipulags- og öryggisdeildum sambandsins.

Íþróttamálaráðuneyti Írans greindi frá því í ágúst að konur fái að vera meðal áhorfenda á næsta heimaleik í undankeppni HM. Kvennabannið hefur verið í gildi síðan 1981, undir þeim formerkjum að vernda konur frá karlmannlegri stemningunni og að þurfa að sjá hálfklædda karlmenn.

Unga konan sem kveikti í sér varð þekkt sem bláa stúlkan á samfélagsmiðlum, eftir lit keppnistreyju eftirlætisliðs hennar í heimalandinu, Esteghlal FC. Hún hét Sahar Khodayari. Andlát hennar vakti mikla reiði meðal almennings. Kallað hefur verið eftir því að meina Íran þátttöku á alþjóðlegum mótum. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV