Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Sendiherramálið leiðir tæpast til sakfellingar

04.12.2018 - 21:32
Mynd með færslu
Lögfræðingarnir Hjördís Halldórsdóttir og Halldóra Þorsteinsdóttir voru gestir Kastljóss í kvöld. Mynd:
Lögfræðingarnir Hjördís Halldórsdóttir og Halldóra Þorsteinsdóttir, sem sátu fyrir svörum í Kastljósi í kvöld, eru sammála um að umræður nokkurra góðglaðra þingmanna um meint hrossakaup með sendiherrastöður á Klausturbarnum í síðasta mánuði geti tæpast leitt til sakfellingar verði málið rannsakað og sent til dómstóla.

Rifjað var upp í Kastljósi í kvöld að Gunnar Bragi Sveinsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, hafi sagt að hann hafi átt fund með Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra þar sem hann kvaðst vera tilbúinn að gera Geir H. Haarde að sendiherra. Það hafi hann skilyrt með því að horft yrði til þess þegar hann þyrfti á einhverju svipuðu að halda. Samkvæmt upptöku frá umræðum þingmannanna á Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra, að hafa að hafa samsinnt þessu og hafa rætt við Bjarna Benediktsson, sem samsinnti því að ef Geir yrði gerður að sendiherra ætti Gunnar Bragi inni greiða hjá Sjálfstæðisflokknum.

„Það er auðvitað reglan að þú mátt ekki lofa upp í ermina á þér eða tryggja þér einhverja hagsmuni eða ávinning í framtíðinni í störfum þínum fyrir hið opinbera,“ sagði Halldóra Þorsteinsdóttir, lektor hjá Háskólanum í Reykjavík og sérfræðingur í fjölmiðlarétti, þegar hún var innt eftir því hvort þarna hefði sannast að Gunnar Bragi Sveinsson hefði brotið lög. „Hvað þetta mál snertir er það held ég dregið fram af því að ég held að lengi hafi verið uppi hugmyndir um þetta; það er að það ríki ekki sömu faglegu viðmið um sendiherra og almennt þegar skipað er í opinberar stöður. Án þess að ég ætli að slá neinu föstu held ég að miðað við ríkjandi sönnunarkröfur í sakamálum dugi þessar upplýsingar ekki til sakfellingar, ekki síst vegna þess að þessi orð hafa verið dregin til baka.“

„Það getur vel verið að eitthvert tilefni sé til að skoða þetta,“ sagði Hjördís Halldórsdóttir, hæstaréttarlögmaður hjá lögmannsstofunni Logos. „Það er álitamál hver ætti að skoða málið, og er það sakamál eða ekki? Ég er alveg sammála því að ef ekkert meira kemur til en einungis það sem fór þingmönnunum á milli er frekar ólíklegt að það myndi leiða til einhverrar niðurstöðu eins og sakfellis í sakamáli.“

Halldóra bætti því við að af málinu sem upp kom á Klausturbarnum mætti draga lærdóm og skoða ráðningar sendiherra. „Við ráðum dómara og opinbera starfsmenn almennt og um það ríkja ákveðin hæfnisviðmið. Auðvitað er eðlilegt að stjórnmálamenn sem hafa unnið lengi fyrir land og þjóð og haft sig í frammi á alþjóðavettvangi og þekkja þau mál mjög vel. En ég held að niðurstaðan um skipan sendiherra sé reist á málefnalegum, eðlilegum og réttlætanlegum forsendum. En ekki að það fari fram með þeim hætti sem kom fram á Klausturbarnum, sem ég ekki um.“

 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV