Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Senda 59.000 Haíta aftur heim

epa06193231 A man draws water from his flooded house after passage of Hurricane Irma, in the territory of Fort-Liberte, Haiti, 08 September 2017.  Hurricane Irma caused minor damage to Haiti, where one person was missing, two injured, thousands of
13 fórust þegar fellibylurinn Irma skall á Haítí í haust. Fleiri fellibyljir hafa hamast á Haítí í haust og erfilega gengur að ráða niðurlögum landlægs kólerufaraldurs sem hjálparsveitir SÞ komu með til landsins í kjölfar skjálftans mikla  Mynd: EPA
Um 59.000 Haítar, sem notið hafa sérstakrar verndar og haft dvalar- og atvinnuleyfi í Bandaríkjunum í skjóli þess síðan einhver mannskæðasti jarðskjálfti sögunnar reið yfir Haítí árið 2010 þurfa að búa sig undir að yfirgefa Bandaríkin eftir hálft annað ár. Ráðuneyti heimavarna tilkynnti í gær að reglugerð um tímabundna undanþágu Haíta frá meginreglum innflytjendalaganna vegna hamfaranna, skammstöfuð TPS, félli endanlega úr gildi eftir átján mánuði, eða vorið 2019.

Yfir 200.000 manns fórust í jarðskjálftanum, höfuðborgin Port-au-Prince var nánast rústir einar og hálf önnur milljón manna lenti á hrakningi. TPS-reglugerðin gerði þeim Haítum sem flúðu til Bandaríkjanna mögulegt að dvelja áfram í landinu eftir að vegabréfsáritun þeirra rann út og heimilaði þeim jafnframt að stunda þar vinnu, vegna skelfilegra aðstæðna heima fyrir.

Í tilkynningu frá starfandi ráðherra heimavarnamála, Elaine Duke, segir hins vegar að eftir ítarlega skoðun hafi ráðuneytið komist að þeirri niðustöðu að þessar aðstæður væru ekki lengur fyrir hendi. Fólki á vergangi hefði fækkað um 97 prósent á Haítí frá 2010, stór og mikilvæg skref hefðu verið stigin til að auka stöðugleika og bæta lífsgæði landsmanna og Haítí ekkert að vanbúnaði að taka á móti sínu fólki að nýju. Því væru engin rök fyrir því að framlengja sérstök dvalar- og atvinnuleyfi Haíta frekar.

Átján mánaða fresturinn er hugsaður til að gefa fólki færi á ganga frá sínum málum, undirbúa búferlaflutningana og leita réttar síns, telji það sig órétti beitt með þessari ákvörðun.

Hugmyndafræði trompar staðreyndir

Steve Forester, sem stýrir rannsóknarsetri í Flórída sem sérhæfir sig í málefnum Haítí, segir þetta forkastanlega ákvörðun með tilliti til raunverulegra aðstæðna á Haítí. „Þetta er sigur hugmyndafræðinnar yfir staðreyndunum, því staðreyndirnar blasa við og þetta mun auka á óstöðugleika í Haítí og þetta er slæmt fyrir Bandaríkin," segir Forester í samtali við AFP-fréttastofuna.

Um helmingur þeirrar milljónar Haíta sem býr í Bandaríkjunum er til heimilis í Flórída. Stærstu átthagasamtök þeirra í Sólskinsfylkinu hafa blásið til mótmælaaðgerða við sumarhöll Donalds Trumps þar syðra, Mar-a-Lago.  
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV