Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Senda 1.500 tonn af rusli til Kanada

31.05.2019 - 04:26
epa07613899 Cargo ship MV Bavaria sails into the sea after loading Canadian waste at the Subic Bay Freeport Zone, Olongapo city, north of Manila, Philippines, 31 May 2019. Reports state that waste material that came from Canada in batches in the years 2013 and 2014 are shipped back to Canada by the MV Bavaria from Subic port on 31 May. Following more than a month of intense pressure exerted by the administration of President Rodrigo Duterte, the Canadian government agreed to take over the costs for the repatriation of its waste, some 2,450 tons of garbage.  EPA-EFE/JUN DUMAGUING
Gámaflutningskipið MV Bavaria leggur úr höfn í Subic-flóa með 1.500 tonn af kanadísku rusli, sem flytja á aftur til Vancouver Mynd: EPA-EFE - EPA
Stjórnvöld í FIlippseyjum sendu í gær um það bil 1.500 tonn af rusli í 69 gámum aftur til síns heima, hinu megin á hnettinum, nánar tiltekið til Vancouver í Kanada. Gámaskipið lagði upp í leiðangur sinn frá fríhöfninni í Subic-flóa, norður af Manila, um miðnæturbil að íslenskum tíma.

Kanadísk og filippeysk yfirvöld hafa átt í hörðum deilum vegna úrgangsins um nokkurra vikna skeið, en hann var sendur til Filippseyja árið 2014. Var ruslið merkt sem endurvinnanlegt plast en reyndist blandaður og óendurvinnanlegur úrgangur þegar á reyndi.

Hótaði að sturta ruslinu í kanadískan sjó

Rodrigo Duterte hótaði því á dögunum að sigla sjálfur með sorpið til Kanadastranda og sturta því þar í sjóinn og utanríkisráðuneyti Filippseyja kallaði sendiherra landsins og ræðismenn heim frá Kanada. Kanadastjórn lét undan og samþykkti að taka á móti sorpinu og standa straum af öllum kostnaði við flutning þess. Búist er við að ruslaskipið komi til Vancouver fyrir júnílok og er ætlunin að brenna sorpinu í fjarvarmaveri þar í borg.

Vilja ekki lengur „útlenskan úrgang“

Vaxandi óþols gætir í löndum Afríku, Austur- og Suðaustur-Asíu gagnvart sorpútflutningi Vesturlanda til þeirra og skammt er síðan Kínverjar lögðu blátt bann við frekari innflutningi á „útlenskum úrgangi." Þetta leiddi meðal annars til þess að sorpútflutningur jókst mjög til annarra ríkja.

Eitt þeirra er Malasía, þar sem innlutningur á plastrusli hefur þrefaldast á síðustu tveimur árum. Malasíustjórn brást nýverið við þessu með því að fylgja fordæmi Kínverja og banna allan innflutning á erlendu sorpi. Í þessari viku tilkynntu svo umhverfisyfirvöld þar í landi að 450 tonn af plastrusli yrðu send aftur til upprunalandanna, þar á meðal Ástralíu, Bangladess, Kína, Japan, Sádi Arabíu, Bandaríkjanna og Kanada.  

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV