
Senda 1.500 tonn af rusli til Kanada
Kanadísk og filippeysk yfirvöld hafa átt í hörðum deilum vegna úrgangsins um nokkurra vikna skeið, en hann var sendur til Filippseyja árið 2014. Var ruslið merkt sem endurvinnanlegt plast en reyndist blandaður og óendurvinnanlegur úrgangur þegar á reyndi.
Hótaði að sturta ruslinu í kanadískan sjó
Rodrigo Duterte hótaði því á dögunum að sigla sjálfur með sorpið til Kanadastranda og sturta því þar í sjóinn og utanríkisráðuneyti Filippseyja kallaði sendiherra landsins og ræðismenn heim frá Kanada. Kanadastjórn lét undan og samþykkti að taka á móti sorpinu og standa straum af öllum kostnaði við flutning þess. Búist er við að ruslaskipið komi til Vancouver fyrir júnílok og er ætlunin að brenna sorpinu í fjarvarmaveri þar í borg.
Vilja ekki lengur „útlenskan úrgang“
Vaxandi óþols gætir í löndum Afríku, Austur- og Suðaustur-Asíu gagnvart sorpútflutningi Vesturlanda til þeirra og skammt er síðan Kínverjar lögðu blátt bann við frekari innflutningi á „útlenskum úrgangi." Þetta leiddi meðal annars til þess að sorpútflutningur jókst mjög til annarra ríkja.
Eitt þeirra er Malasía, þar sem innlutningur á plastrusli hefur þrefaldast á síðustu tveimur árum. Malasíustjórn brást nýverið við þessu með því að fylgja fordæmi Kínverja og banna allan innflutning á erlendu sorpi. Í þessari viku tilkynntu svo umhverfisyfirvöld þar í landi að 450 tonn af plastrusli yrðu send aftur til upprunalandanna, þar á meðal Ástralíu, Bangladess, Kína, Japan, Sádi Arabíu, Bandaríkjanna og Kanada.