Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Semja við veðurguðina um þurrk fyrir þingfund

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Alþingi kemur saman til fundar á Þingvöllum eftir viku í tilefni hundrað ára afmælis fullveldis Íslands. Fundurinn verður undir berum himni og samningaviðræður eru hafnar við veðurguðina en forseti Alþingis kvíðir því ekki að starfa í rigningarúða eins og forverar sínir.

Hátíðarfundur Alþingis á Þingvöllum þann átjánda júlí er annar af tveimur hápunktum afmælisársins. Forseti Íslands, forseti Alþingis og fulltrúar allra flokka ávarpa fundargesti og forseti danska þjóðþingsins flytur ávarp fyrir hönd erlendra þingforseta og gesta. Tvö mál eru á dagskrá, sem birt verða á föstudag. „Varðandi praktískan undirbúning þá er bara verið að setja upp aðstöðuna, þingpallinn á Þingvöllum og svo bara bíða menn eftir veðurspánni. Og þetta verður undir berum himni, er það ekki bjartsýni eins og tíðin hefur verið? Neinei, var ekki lýðveldið stofnað í rigningarúða, menn bara taka því sem að höndum ber sem veðrið og við vonum að það verði hægt að búa þannig að öllum, fólk kemur bara klætt eftir veðri og svo framvegis. Það er nú ekki eins og þetta sé eina skiptið sem haldnar eru útisamkomur á Íslandi og þetta urðu menn að láta sig hafa hérna til forna þegar þingið var haldið undir beru lofti á Þingvöllum,“ segir Steingrímur. 

Sýnt verður beint frá fundinum í sjónvarpi og framkvæmdir hófust í morgun við Lögberg við að koma upp þingpallinum, sem verður mun veglegri en við svipuð tækifæri síðustu ár, segir Einar Á Sæmundsen þjóðgarðsvörður. „Það er í þessum töluðum orðum verið að flytja allt hér frá Flosagjá yfir að Lögbergi þannig að það er svona sérstakur gjörningur í háloftunum hér fyrir gesti og gangandi,“ segir Einar. 

Framkvæmdir við gestastofuna við Hakið hafa staðið síðustu mánuði og Einar vonast til að þeim verði lokið sem allra fyrst en meiri óvissa sé um opnun margmiðlunarsýningar um Þingvelli, sem opna átti við sama tækifæri. „Við reiknum alveg fastlega með því að gestastofan verði tekin í notkun í næstu viku. Á nítjánda þá verði farið að nýta andyrið og salernin og tengibyggingu í gegn og allir salir eiga að vera komnir í lag, það er hins vegar verið að berjast við það að reyna að koma sýningunni alveg inn í hús en við stefnum að því að hún verði eins langt komin og unnt er,“ segir Einar.