Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Semja um rafmagn fyrir gagnaver á Blönduósi

19.12.2018 - 11:01
Mynd með færslu
 Mynd:
Landsvirkjun og gagnaversfyrirtækið Etix Everywhere Iceland hafa undirritað samning um afhendingu 25 megavatta af rafmagni til nýs gagnavers á Blönduósi. Gagnaverið hefur hafið rekstur og standa yfir framkvæmdir við stækkun þess.

Í tilkynningu frá Landsvirkjun kemur fram að gagnaverið verði fyrsti stórnotandi rafmagns sem tengist beint við nýtt tengivirki Landsnets við Laxárvatn í Blönduósbæ. Fyrirtækið verður þriðji viðskiptavinur Landsvirkjunar í ört vaxandi gagnaversiðnaði hér á landi. 

30 þúsund tölvur

Hlutirnir hafa gerst hratt á Blönduósi frá því fyrsta skóflustungan að gagnverinu var tekin í maí. Vinna er langt komin við að reisa sex hús, og tengigang, alls um 4.000 fermetra. Þetta verður stærsta gagnaver Etix Everywhere á Íslandi og er hluti þess nú þegar kominn í rekstur.

Að auki rekur fyrirtækið gagnaver í Reykjanesbæ. „Áætlað er að tölvur í gagnaverum í beinni eða óbeinni eigu Etix Everywhere Borealis verði um 30 þúsund talsins eftir þessa stækkun, en nýju gagnaverin eru svokölluð „High Performance Computing“ ver, þar sem mikil reiknivinnsla er fyrir hendi,“ segir í tilkynningunni. 

Mynd með færslu
 Mynd:
Svona leit gagnaverið á Blönduósi út fyrir mánuði síðan.

Orkan sem samið hefur verið um verður afhent úr núverandi kerfi Landsvirkjunar, en fyrirtækið rekur nú 15 vatnsaflsstöðvar, þrjár jarðvarmastöðvar og tvær vindmyllur.

Samningurinn er háður tilteknum skilyrðum til þess að öðlast fullnaðargildi, að því er fram kemur í tilkynningu frá Landsvirkjun. 

jonthk's picture
Jón Þór Kristjánsson
Fréttastofa RÚV