Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Selum fækkar við Ísland

22.07.2015 - 23:56
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Sterkar vísbendingar eru um að selum sé að fækka við strendur landsins. Árleg selatalning á vegum Selasetursins fór fram um helgina, en þá töldust aðeins 446 dýr, sem er minnsti fjöldi sem talin hefur verið frá því markvissar selatalningar hófust.

Metþáttaka var í selatalningunni sem fór fram í Vestur-Húnavatnssýslu, en Sandra Granquist, vistfræðingur hjá Selasetri Íslands, segir að þrátt fyrir það hafi ekki talist margir selir.

„Þetta er í rauninni lægsta talan sem við höfum fengið í þessari talningu. þetta er níunda skiptið sem við erum að telja,“ segir hún. „En aftur á móti var líka rosalega slæmt veður á sunnudaginn. Og það hefur áhrif, því þeir leggja síður uppi á landi þegar það vindur og rigning.“

Sandra tekur fram að talningin nú um helgina sé líklega ekki alls kostar marktæki, en þrátt fyrir það gefi talningar á síðustu árum vísbendingar um að selum sé að fækka við landið.

„Vísbendingarnar um þessa fækkun, sem við fundum 2014 eru náttúrlega frekar sterkar,“ segir Sandra.

Sandra segir að ekki sé vitað hvaða ástæður valdi þessari fækkun. Hún tekur fram að margir þættir geti spilað inn í, meðal annars hlýnun sjávar og minnkandi fæðuframboð. Þá sé ekki vitað hvort það ástæðan fyrir fækkuninni sé sú að eldri selir haldi ekki velli eða hvort kópar komist ekki á legg við landið.

Sandra segir að heildstætt stofnstærðarmat hafi síðast farið fram árið 2011, en nauðsynlegt sé að ráðast í slíkt mat aftur sem fyrst.

„Við vorum að vonast til þess að fá fjármagn til að geta talið stofninn í heild sinni um allt land núna í ár. Það fékkst ekki, en við vonumst til þess að geta gert það á næsta ári. Ég tel það vera mjög nauðsynlegt að geta gert það,“ segir Sandra.

birkirbi's picture
Birkir Blær Ingólfsson
Fréttastofa RÚV