Seldu upplýsingar á 30 milljónir

23.05.2012 - 18:14
Mynd með færslu
 Mynd:
Tveir fyrrverandi starfsmenn embætti sérstaks saksóknara hafa verið kærðir til Ríkissaksóknara fyrir brot á þagnarskyldu. Mönnunum er gert að sök hafa notað upplýsingar sem þeir fengu í störfum sínum hjá embættinu og selt þriðja aðila í formi skýrslu. Þeir fengu 30 milljónir króna fyrir skýrsluna.

Mennirnir, sem eru fyrrverandi lögreglumenn, unnu að rannsókn Sjóvár-málsins og Milestone þegar þeir störfuðu hjá embætti sérstaks saksóknara. Þeir létu af störfum um áramót. Samkvæmt heimildum fréttastofu stofnuðu mennirnir ráðgjafafyrirtæki áður en þeir hættu störfum hjá embættinu.

Á vettvangi ráðgjafafyrirtækisins unnu þeir 17 blaðsíðna skýrslu fyrir þrotabú Milestone og fengu greiddar rétt tæpar 30 milljónir króna fyrir. Í lok apríl kærði sérstakur saksóknari mennina til ríkisssaksóknara fyrir brot á þagnarskyldu. Mennirnir eru taldir hafa í skýrslunni nýtt upplýsingar sem þeir öfluðu sem opinberir starfsmenn.

Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, lítur málið alvarlegum augum og hefur áhyggjur af því að þetta rýri trúverðugleika embættisins. Farið verði yfir þau mál sem mennirnir unnu að hjá embætti sérstaks saksóknara, þau séu frekar afmörkuð og ákvörðun svo tekin um framhaldið. 

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi