
Seldi syninum Lyf og heilsu á eina milljón
Athafnamaðurinn Karl Wernersson, sem var einn af aðaleigendum eignarhaldsfélagsins Milestone fyrir hrun, var úrskurðaður gjaldþrota í vor. Síðan hefur skiptastjóri búsins haft ýmsar ráðstafanir Karls á eignum sínum til rannsóknar og í Fréttablaðinu er greint frá því að það hafi nú leitt til þess að skiptastjórinn hafi höfðað nokkur mál til að rifta ýmsum þessara ráðstafana.
Samkvæmt upplýsingum fréttastofu voru málin höfðuð í vikunni og eru fimm. Það fyrsta varðar sölu á félaginu Toska ehf. til Jóns Hilmars, sonar Karls, á eina milljón króna. Ein af eignum Toska, í gegnum tvö dótturfélög, er apótekakeðjan Lyf og heilsa.
Fréttastofa sagði frá því í fyrra að Karl hafi, degi eftir að hann var dæmdur í fangelsi í fyrravor, skilað inn breyttum ársreikningi félagsins Lyfja og heilsu þar sem hann var ekki lengur tilgreindur eigandi, heldur sonur hans. Óljóst var hvenær sú eigendabreyting átti að hafa orðið. Inni í einum af dótturfélögum Toska eru líka 30 fasteignir og fleira.
Annað riftunarmálið snýst um tilfærslu Karls á tveimur eignum inn í félag sem heitir Faxi ehf., dótturfélag Toska. Þangað færði hann annars vegar hrossaræktarbúgarðinn Feta í Rangárþingi Ytra, og hins vegar félagið Vátt, sem keypti Galtalækjarskóg árið 2007 á 225 milljónir. Faxi keypti félögin af Karli á eina krónu hvort.
Faxi ehf á dótturfélag sem heitir Faxar. Þriðja málið snýst um ráðstöfun á ýmsum eignum frá Karli þangað. Stærst þeirra var þegar Karl flutti í fyrra 1100 fermetra hús sitt nærri Lucca í Toscana-héraði á Ítalíu yfir í félagið. Húsið er metið á mörghundruð milljónir króna.
Síðustu tvö málin eru öllu smærri og snúa að ráðstöfun eigna Karls til nákominna.
Heildarkröfur í bú Karls nema um tólf milljörðum króna. Langstærsta krafan er frá þrotabúi Milestone, sem Karl var dæmdur til að greiða á sjötta milljarð, sem síðan hefur safnað miklum vöxtum. Næststærsti kröfuhafinn er Tollstjóri vegna skattakrafna af arðgreiðslum árin 2006 og 2008 upp á tæpar 700 milljónir. Aðrar kröfur eru mun minni.