Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Seldi hlut í Wintris skömmu fyrir ný skattalög

03.04.2016 - 18:33
Mynd: Kastljós / RÚV
Sigmundur Davið Gunnlaugsson forsætisráðherra seldi hlut sinn í aflandsfélaginu Wintris Inc., sem skráð er á Tortóla, á gamlársdag 2009. Daginn eftir tóku í gildi lög sem sett höfðu verið til höfuðs aflandsfyrirtækjum. Ekkert bendir til þess að upphafleg eigendaskráning á Wintris hafi verið byggð á misskilningi og engar upplýsingar eru um að prókúra Sigmundar Davíðs hafi verið afturkölluð.

Þetta kom fram í  sérstökum Kastljóssþætti sem nú er verið að sýna í sjónvarpinu. Í þættinum er fjallað um tengsl íslenskra stjórnmálamanna við fyrirtæki í þekktum skattaskjólum.

Þátturinn er unninn í samstarfi við Reykjavík Media, Alþjóðasamtök rannsóknarblaðamanna (ICIJ) og þýska dagblaðið Süddeutsche Zeitung. Umfjöllunin byggði á svokölluðum Panama-skjölum, gögnum sem lekið var til þýska blaðsins og geyma viðskiptaupplýsingar aflandsþjónustu fyrirtækis á Panama.

Fyrirtækið er panamska lögfræðistofan Mossack Fonsecka, hún er ein sú stærsta í heimi aflandseyja, leynireikninga og skattaskjóla. Í gögnum sem lekið var til Süddeutsche Zeitung kemur fram að Landsbankinn í Lúxemborg var umsvifamesti íslenski viðskiptavinur lögfræðistofunnar. 

Á lista yfir viðskiptavini lögfræðistofunnar eru 11 núverandi eða fyrrverandi þjóðarleiðtogar, meðal annars Salman, konungur Sádi-Arabíu, Mauricio Macri, forseti Argentíu, og Pavlo Lazarenko, fyrrverandi forsætisráðherra Úkraínu. Hann situr nú af sér níu ára dóm í Bandaríkjunum.

Á lista yfir viðskiptavini þessarar lögfræðistofu í Panama má einnig finna Sigmund Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra Íslands.

Í gögnunum sem lekið var til Süddeutsche Zeitung kemur fram að Sigmundur Davíð var frá upphafi skráður eigandi Wintris ásamt eiginkonu sinni. Það sýna fyrirmæli sem Landsbankinn sendi til Panama um stofnun Wintris.

Í þættinum kemur einnig fram að Sigmundur Davíð skráði Wintris aldrei í hagsmunaskrá þingmanna þrátt fyrir að hafa verið skráður fyrir helmingshlut í félaginu til 31. desember 2009. Sigmundur hafði setið á Alþingi frá því í apríl sama ár. Forsætisráðherra hefur sagt að hann hafi ekki þurft að skrá þetta félag þar sem það hafi ekki verið í atvinnurekstri.

Í þætti Kastljóss er á það bent að í hagsmunaskráningu Sigmundar frá þessum tíma telur hann þó upp félagið Menning ehf. sem hann átti á móti eiginkonu sinni, félag sem hann hefur sjálfur sagt að hafi þá enga starfsemi haft.  

Í þættinum segir einnig að Sigmundur seldi hlut í Wintris á gamlársdag 2009 fyrir einn dollar. Daginn eftir tóku gildi lög sem sett voru til höfuðs aflandsfélögum.

Í yfirlýsingu eiginkonu Sigmundar, sem birtist á Facebook-síðu hennar 15. mars, var því haldið fram að Wintris hefði fyrir misskilning verið skráð sem sameiginleg eign þeirra.

Í þættinum, sem nú er sýndur á RÚV, kemur fram að engin gögn sem varða Wintris, stofnun þess og samskiptasögu við Lúxemborg, benda til þess að þetta hafi verið misskilningur né að salan á hlut Sigmundar 31. desember 2009 hafi verið leiðrétting.

Í þættinum voru jafnframt sýnd gögn sem sýna að eiginkona Sigmundar tók ekki við framkvæmdastjórn fyrirtækisins fyrr en í september 2010. Að sama skapi er upplýst að ekki sjáist upplýsingar um að prókúra Sigmundar Davíðs hafi verið afturkölluð.