Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Sektir við nafnlausum kosningaauglýsingum

07.12.2018 - 12:20
Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Stjórnmálaflokkar og frambjóðendur eiga sektir yfir höfði sér ef þeir birta eða tengjast nafnlausum auglýsingum í kosningabaráttu, samkvæmt nýju frumvarpi sem formenn allra stjórnmálaflokka á þingi standa að.

 

Frumvarpið var lagt fram á Alþingi í gær. Það er unnið af nefnd sem í áttu sæti framkvæmdastjórar allra stjórnmálaflokka á þingi auk fulltrúa Ríkisendurskoðunar, forsætisráðuneytisins og fjármálaráðuneytisins.

Helsta nýmælið í lögunum er að merkja verður allar auglýsingar í stjórnmálabaráttu ef stjórnmálasamtök, kjörnir fulltrúar eða frambjóðendur samtakanna, sem og frambjóðendur í persónukjöri eiga einhverja aðkomu að birtingunni. Með lagabreytingunni er leitast við að koma til móts við hörð viðbrögð sem nafnlausar auglýsingar vöktu í kosningabaráttunni 2017. Þær beindust gegn ákveðnum flokkum og frambjóðendum. Ef í ljós kemur að flokkar eða frambjóðendur tengjast auglýsingum án þess að upplýst sé um tengslin eiga þeir sektir yfir höfði sér.

Í frumvarpinu eru einnig breytingar á fjárhæðum í styrkjum og útgjaldaheimildum flokka. Flokkar og frambjóðendur hafa frá árinu 2006 mátt fá að hámarki 400 þúsund krónur í styrk frá fyrirtæki eða einstaklingum á ári hverju. Nú mega þeir fá allt að 550 þúsund krónur frá hverju fyrirtæki, eða tengdum fyrirtækjum. Aðildarfélög flokka mega þó fá samtals 100 þúsund krónur í styrki frá tengdum fyrirtækjum sem styrkt hafa flokkinn um hámarksfjárhæð. Lögin kveða einnig á um hámarksfjárhæð sem flokkar og frambjóðendur mega verja í kosningabaráttu. Sú fjárhæð hefur verið óbreytt frá 2006 en fer nærri því að tvöfaldast samkvæmt frumvarpinu.

 

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV