Sektir fyrir farsímanotkun verði áttfaldaðar

04.07.2017 - 22:09
Mynd: Daniel Nanescu / Splitshire
Um 500 manns eru sektaðir árlega fyrir farsímanotkun undir stýri en varðstjóri hjá lögreglu telur sektirnar svo lágar að ökumönnum sé sama um þær. Ríkissaksóknari hefur lagt til að þær verði verði áttfaldaðar. Sekt fyrir að nota farsíma undir stýri er nú 5.000 krónur, en hún lækkar í 3.750 krónur ef hún er greidd innan mánaðar.

„Mér finnst bara eins og þetta sé orðin það lág upphæð að mönnum sé alveg sama. Og þegar svoleiðis ástand er komið í umferðina að mönnum er sama hvort þeir eru sektaðir eða ekki þá sér hver heilvita maður að þetta gengur ekki,“ segir Árni Friðleifsson, varðstjóri í umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Nái einnig til annars konar tækja

Þessu er ríkissaksóknari sammála. Hann sendi samgönguráðherra nú í júní tillögur um hækkun sekta fyrir umferðarlagabrot. Hann leggur til að sektir hækki almennt í takti við verðlagsbreytingar, en að sektir fyrir að nota farsíma við akstur hækki miklum mun meira  úr 5.000 krónum í 40.000 krónur, sem er áttföld hækkun.

Ástæðan er fjölgun slíkra brota og hættan sem þeim fylgir. Þá segist Ríkissaksóknari telja að setja þurfi nánari reglur um farsímanotkun undir stýri, svo sem um sms-sendingar og netnotkun og að þær reglur verði líka látnar ná til annars konar tækja.

Aftanákeyrslur töluvert algengar

„Við þekkjum það hérna á Sæbrautinni, þegar umferðin er orðin hæg þá liggur við að hausinn á öðrum hverjum ökumanni sé dottinn niður og það hægir bara ennþá meira á. Fólk er bara komið í að svara póstum og er ekkert að fylgjast með umferðinni,“ segir Árni.

„Við höfum séð það margoft að aftanákeyrslur eru töluvert algengar af því að fólk er einfaldlega með símann og er að fylgjast með einhverju sem er að gerast þar,“ bætir hann við.

Oft erfitt að sanna að símanotkun hafi valdið slysi

Um 500 manns eru sektaðir á ári fyrir að nota farsíma undir stýri - ekki liggur fyrir bein tölfræði um slys af völdum farsímanotkunar, enda oft erfitt að sanna slíkt. Árni segir þó að nokkuð mörg dæmi séu um alvarleg slys af þessum völdum.

„Núna nýlega, fyrir nokkrum dögum, þá varð slys þar sem ökumaður ekur yfir á rauðu ljósi, viðurkennir það að hafa verið í símanum, ekur inn í hlið á öðrum bíl og tveir fluttir slasaðir á slysadeild úr þeim bíl, þannig að við erum með nokkuð mörg dæmi,“ segir Árni Friðleifsson.

stigurh's picture
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi