
Sektir allt að áttfaldast um mánaðamót
Ýmsar raddir hafa heyrst um að sektir fyrir umferðarlagabrot séu of lágar og hafi lítinn fælingarmátt - enda hafa sumar þeirra verið óbreyttar í rúman áratug. Um næstu mánaðamót tekur í gildi reglugerð sem er í það minnsta ætlað að auka þennan fælingarmátt - og það svo um munar í sumum tilvikum.
Sektin fyrir að nota farsíma án handfrjáls búnaðar undir stýri hefur verið fimm þúsund krónur frá árinu 2006. Um næstu mánaðamót hækkar sektin upp í 40 þúsund krónur, verður sem sagt átta sinnum hærri.
Ýmsar aðrar sektir hækka umtalsvert. Sekt fyrir að keyra yfir á rauðu ljósi hækkar úr fimmtán þúsund krónum í þrjátíu þúsund. Þá hækkar sekt fyrir að virða ekki biðskyldu eða stöðvunarskyldu úr fimmtán þúsund krónum í þrjátíu þúsund. Ef menn eru á nagladekkjum yfir sumartímann hækkar sektin úr 20 þúsund krónum í áttatíu þúsund, sem er tuttugu þúsund krónur á dekk. Og þá er ein ný sekt - nú getur það kostað hjólreiðamann tuttugu þúsund krónur að aka á móti rauðu ljósi.
Hæstu sektirnar hækka líka, þó að hlutfallslega sé hækkunin ekki eins mikil. Til dæmis hækkar sekt fyrir að keyra á yfir 160 kílómetra hraða þar sem hámarksharðinn er níutíu, úr 150 þúsundum í 240 þúsund. Og hæstu sektirnar fyrir ölvunarakstur hækka úr 240 þúsundum í 320 þúsund.
Það er því ljóst að umferðarlagabrot munu taka töluvert meira í pyngjuna frá næstu mánaðamótum. Nú er að sjá hvort þetta þýði meiri löghlýðni í umferðinni eða meiri tekjur fyrir ríkissjóð.