Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Seig um 45 sm eftir skjálftann í morgun

15.09.2014 - 12:15
Mynd með færslu
 Mynd:
Kröftugur skjálfti, 5,4 að stærð, varð í Bárðarbungu í morgun. Samkvæmt GPS-tæki, sem er í miðri Bárðarbunguöskjunni, seig askjan um 20 sentímetra þegar skjálftinn varð og svo aðra 25 sentímetra næstu tvær til þrjár klukkustundirnar eftir skjálftann.

Þetta er annar skjálftinn frá hádegi í gær sem er yfir 5 að stærð. Um tvöleytið í gærdag varð skjálfti af stærðinni 5,3 - þá sýndu mælingar í öskjunni að hún hefði sigið um nokkra sentímetra.

Fram kom í grein Magnúsar Tuma Guðmundssonar og Páls Einarssonar, jarðeðlisfræðinga, í síðustu viku að Bárðarbunga gæti mögulega sigið um hundrað metra.

Öskjusigið valdi verulegri óvissu um framvindu mála enda hefur slíkt ekkert gerst síðan Öskjuvatn myndaðist á 19.öld. Í grein þeirra Páls og Magnúsar Tuma koma enn fremur fram að jarðsigið valdi jarðvísindamönnum og Almannavörnum miklum áhyggjum og að líkur á eldgosi í öskjunni hafi aukist.

Yfir 30 skjálftar mældust í Bárðarbungu í nótt - tveir snarpir urðu skömmu eftir miðnætti, annar 3,6 en hinn 3,7.