Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Seiðaeldisstöð á Árskógssandi í umhverfismat

10.04.2017 - 16:50
Mynd með færslu
Árskógssandur og Hrísey eru á meðal áfangastaða á hinni nýju Norðurstrandarleið, sem kynnt er sem sérstakur ferðamannasegull. Mynd: Bromr - Wikimedia Commons
Skipulagsstofnun hefur úrskurðað um að framkvæmdir vegna fyrirhugaðrar seiðaeldisstöðvar við Þorvaldsdalsárós í Dalvíkurbyggð skuli í umhverfismat. Umhverfisstofnun hafði áður metið framkvæmdina svo að hún hefði ekki neikvæð áhrif á friðlýstar hverastrýtur í Eyjafirði og þurfi því ekki í umhverfismat.

Umtalsverð umhverfisáhrif

Í mati Skipulagsstofnunar kemur meðal annars fram að eldisstöðin, sem fyrirtækið Laxós hyggst reisa, kunni að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli háð mati á umhverfisáhrifum. Byggir sú niðurstaða sérstaklega á upplýsingar vantar um ýmsa þætti framkvæmdarinnar sem geta ráðið miklu um hvaða áhrif framkvæmdin hefur á einstaka umhverfisþætti. Þar er nefnt upplýsingar um útfærslu og umfang aðkomuvegar, útfærslu og umfang framkvæmda til að verjast flóðum, útfærslu á hreinsun frárennslis og útfærslu á afhendingu seiða.

Mikilvægar upplýsingar vantar

Hvað varðar staðsetningu framkvæmdarinnar, þá er hún fyrirhuguð á svæði sem er hverfisverndað sem útivistarsvæði í aðalskipulagi. Þá segir Skipulagsstofnun að einnig sé óljóst hvernig vatnstöku verður háttað og hvaða áhrif vatnstaka á svæðinu kann að hafa á vatnsból og getu þeirra til endurnýjunar. Þá vantar upplýsingar um áhrif framkvæmda á Þorvaldsdalsá, bakka árinnar og lífríki.

Skipulagsstofnun leitaði umsagna Dalvíkurbyggðar, Fiskistofu, Hafrannsóknastofnunar, Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra, Matvælastofnunar, Minjastofnunar Íslands, Orkustofnunar, Samgöngustofu, Umhverfisstofnunar og Veðurstofu Íslands.