Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Segjast hvattir til að fara út á ystu brún

15.02.2016 - 19:17
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ferðamönnum fjölgar svo hratt við Goðafoss að rætt er um að flýta framkvæmdum við fossinn til að auka þar öryggi. Erlendir ferðamenn sem skoðuðu Goðafoss í dag segja að íslensk kynningarmyndbönd hvetji þá til að fara út á ystu brún.

Nú slútir snjórinn yfir bakka Skjálfandafljóts og Goðafoss og nálægar flúðir eru í klakaböndum. Það sést því ekki mikið af þeim merkingum sem vara ferðamenn við hættunni við fossinn á þessum árstíma. Dagbjört Jónsdóttir, sveitarstjóri í Þingeyjarsveit, segir að yfir vetrartímann sé þarna snjór yfir öllu. „Bæði skiltum, göngustígum og þessum böndum sem við erum að reyna að hindra umferðina með,“ segir hún.

Ferðamenn gera sér ekki allir grein fyrir hættunni

Ferðamennirnir sem þarna voru í dag gerðu sér ekki allir grein fyrir þeirri hættu sem fylgir stöðum eins og þessum yfir vetrartímann. Brian Lai, frá New York, sem var þarna á ferð ásamt nokkrum félögum sínum, segist ekki hafa verið varaður við nokkurri hættu. „Það eru engar öryggislínur hérna, svo við vitum í rauninni ekki hvað við megum fara nálægt brúninni.“

Vilja upplifa allt sem þau sjá í kynningum

Og hann segir að kynningarmyndböndin sem þau hafi séð um Ísland hvetji ferðamenn jafnvel til að ganga sem lengst. „Og þetta lítur allt svakalega vel út á myndunum svo auðvitað viljum við komast eins nærri þessum flottu stöðum og þessari upplifun og við getum.“

Hefur orðið vitni af miklum glannaskap

Leiðsögumenn í skipulögðum hópum passa vel upp á sitt fólk, en ferðamenn á eigin vegum fara sína leið. Sigríður Karlsdóttir, veitingamaður í Goðafossmarkaði, segist hafa orðið vitni að dálítið svakalegum atvikum. „Eins og þegar fólk er að labba á fossinum þegar hann er í klakaböndunum. Og hefur bara labbað á brúninni út á miðjan foss.“

Til skoðunar að flýta framkvæmdum

Dagbjört segir að árið 2013 hafi verið lokið við að skipuleggja svæðið við Goðafoss upp á nýtt og þá hafi hafist framkvæmdir við að bæta aðgengi og merkingar. „Og þá kannski sáum við ekki fyrir að hér yrði kannski 25-30 prósent aukning á hverju ári. En við höfum rætt það og þurfum að endurskoða það að flýta jafnvel framkvæmdum,“ segir hún.