Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Segja vefsíður stofnana of oft bara á íslensku

19.01.2019 - 18:30
Mynd með færslu
 Mynd: jay mantri 2015 - jaymantri.com
Upplýsingar á opinberum heimasíðum og vefsvæðum stjórnsýslustofnana á Íslandi eru oftar en ekki einungis á íslensku. Fólk sem veitir innflytjendum ráðgjöf segir að þetta geri útlendingum erfitt um vik að setjast að á Íslandi og aðlagast samfélaginu.

Innflytjendur voru 43.736 í janúar í fyrra, en það eru um 12,6 prósent íbúa landsins. Þar af voru pólverjar tæplega sautján þúsund.

Heimasíða sýslumannsembættana er ekki á ensku, en nokkur dæmi eru um að hægt sé að finna tiltekin eyðublöð eða upplýsingar um afmörkuð svið á síðunni á ensku. Þetta getur komið niður á fólki, enda geta sýslumenn beitt viðurlögum ef fólk fylgir ekki reglum.

Alltof algengt
Nína Helgadóttir, verkefnastjóri flóttamannamála hjá Rauða krossinum, segir að þetta vandamál sé ekki einskorðað við heimasíðu sýslumanna. Alltof algengt sé að opinberar síður íslenskra stofnana séu einungis til á íslensku.

„Ég held að allir sem vinna við ráðgjöf fyrir innflytjendur og með innflytjendum hafi orðið varir við þetta,“ segir Nína.

Er þetta alvarlegt?

„Það getur alveg orðið það. Þetta gerir auðvitað líf fólks erfiðara og snúnara. Kemur í veg fyrir að fólk geti orðið sjálfbjarga og finni sig heima í samfélaginu. Svo eru örugglega dæmi þess að þetta kemur illa við fólk. Það missir af einhverjum nauðsynlegum upplýsingum varðandi til dæmis fjármál,“ segir Nína.

Nauðsynlegt að bæta
Fjölmenningarsetrið heldur úti heimasíðu sem miðar að því að gera nauðsynlegar upplýsingar aðgengilegar erlendu fólki. Rúnar Helgi Haraldsson er forstöðumaður setursins.

„Eðli málsins samkvæmt getur heimasíða sem tekur yfir svona vítt svið ekki farið ofan í dýpstu smáatriði. Ég hefði haldið að menn þyrftu svolítið að einbeita sér að hafa heimasíður á ensku og pólsku,“ segir Rúnar.

Rúnar telur að stjórnvöld þurfi að vera vakandi fyrir þessu og verja fé til að bæta upplýsingagjöf við innflytjendur.

„Ég myndi segja að það væri bráðnauðsynlegt,“ segir Rúnar.

birkirbi's picture
Birkir Blær Ingólfsson
Fréttastofa RÚV