Segja þingmennina ekki hafa haft skyldumætingu

12.12.2018 - 17:26
Mynd með færslu
 Mynd:
Miðflokksmenn segja að starfsmenn Alþingis geti alltaf náð í Sigmund Davíð Gunnlaugsson eða komið boðum til hans. Þetta kemur fram í færslu á Facebook-síðu Miðflokksins, en enginn er skráður fyrir færslunni.

Tilefni skrifanna er umfjöllun í fjölmiðlum um að Sigmundur Davíð hafi ekki svarað boði á fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í dag. Á fundinum átti að ræða efnislega hluta Klausturupptakanna þar sem Gunnar Bragi ræðir skipan Geirs Haarde í stöðu sendiherra gegn vilyrði fyrir því að hann fengi síðar stöðu í utanríkisþjónustunni sjálfur. Málið komst þó aldrei á dagskrá fundarins í morgun og hefur formaður nefndarinnar sagt að hvorki hafi náðst í Sigmund Davíð, né heldur Gunnar Braga Sveinsson. Báðir eru þingmenn Miðflokksins. 

Miðflokksfólk segir líka að þeir sem voru boðaðir á fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hafi enga skyldu til að mæta. „Það er afar fátítt að þingnefndir séu notaðar í jafn augljósum pólitískum tilgangi og átti að gera. Slíkt á ekki að viðgangast,“ er skrifað á síðuna. Á fundinn höfðu verið boðaðir þeir Sigmundur Davíð og Gunnar Bragi og Sjálfstæðismennirnir Bjarni Benediktsson og Guðlaugur Þór Þórðarson. Bjarni hafði boðað komu sína á fundinn en Guðlaugur Þór hafði komið þeim boðum áleiðis til nefndarinnar að hann yrði staddur erlendis.  

Í færslunni er líka fjallað um boðun Báru Halldórsdóttur í þinghald í Héraðsdómi Reykjavíkur í næstu viku. „Vegna umræðu í fjölmiðlum er rétt að taka eftirfarandi fram. Skýrslutaka yfir manneskju sem gerðist sek um eða tók á sig sök um hlerun er einungis einn liður í nauðsynlegri gagnaöflun. Við reiknum fastlega með því að ýmislegt eigi eftir að koma fram. Rétt einstaklinga til friðhelgi ber alltaf að virða og er það okkar helsti útgangspunktur. Ekki er búið að ákæra neinn og ekki að fara fram á bætur frá neinum,“ segir í færslunni.

Símon Sigvaldason, dómstjóri í Héraðsdómi Reykjavíkur, hefur hins vegar sagt við fréttastofu að í bréfi sem Bára fékk sent hafi hún ekki verið boðuð til skýrslutöku. Hún hafi hins vegar verið boðuð sem aðili máls þannig að hægt væri að gera henn ljóst að hugsanlega verði höfðað mál gegn henni og að hún gæti þurft að grípa til varna.

Fréttinni var breytt klukkan 17.45.