Segja stjórnvöld gefa eftir tugi milljarða

27.02.2019 - 15:55
Mynd með færslu
 Mynd:
Þingmenn Miðflokksins segja að frumvarp um meðferð aflandskrónueigna feli í sér algjört og endanlegt fráhvarf frá aðgerðaáætlun stjórnvalda frá árinu 2015 um losun hafta og endurreisn efnahagslífsins. Með frumvarpinu gefi stjórnvöld vogunarsjóðum eftir tugi milljarða króna. Ríflega fjórtán klukkustunda umræða um frumvarpið í gær og í nótt hafi verið til þess að reyna að fá svör um áform stjórnvalda.

Þingmenn Miðflokksins nánast fylltu mælendaskrá frá því síðdegis í gær og fram undir morgun. Samtals fluttu þeir meira en 300 ræður. Umræðunni var svo áfram haldið í dag og stendur nú yfir á Alþingi.

Í fréttatilkynningu frá þingflokki Miðflokksins gagnrýna þingmennirnir að þeir sem styðji frumvarp fjármálaráðherra skuli ekki halda ræðu og verja það eða útskýra. 

Allir flokkar aðrir en Miðflokkur að baki nefndaráliti um frumvarpið

Allir aðrir flokkar standa saman að nefndaráliti efnahags og viðskiptanefndar. Frumvarpið er eitt af lokaskrefum stjórnvalda til að afnema fjármagnshöft sem sett voru á í kjölfar hrunsins. Með frumvarpinu er lagt til að lögunum verði breytt þannig að öllum aflandskrónueigendum verði gefið færi á að losa aflandskrónueignir sínar. Þeim verði meðal annars heimilt að fjárfesta í innstæðubréfum Seðlabankans en ekki bara setja féð á bundinn reikning. Þá verður þeim heimilt að taka aflandskrónueignir í formi innstæðna út af reikningum eða innleysa innstæðubréf Seðlabankans til að kaupa erlendan gjaldeyri hjá fjármálafyrirtæki hér á landi eða alþjóðlegri verðbréfamiðstöð sem lagður er á reikning hjá erlendu fjármálafyrirtæki erlendis. 

Seðlabankinn taldi mikilvægt að frumvarpið yrði afgreitt áður en gjalddagi tiltekinna ríkisbréfa rynni upp, sem var í gær. Annars myndu aflandskrónueignir í lausu fé aukast um nær 70%, eða sem nemur 25 milljörðum króna.

„Algjört og endanlegt fráhvarf“ frá fyrri stefnu

Í tilkynningu Miðflokksins segir að málið feli í sér algjört og endanlegt fráhvarf frá aðgerðaáætlun stjórnvalda frá árinu 2015, í forsætisráðherratíð Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, um losun hafta og endurreisn efnahagslífsins. Segja þingmenn Miðflokksins að áformin séu til þess fallin að rýra trúverðugleika íslenskra stjórnvalda. „Ítrekuð eftirgjöf stjórnvalda gagnvart vogunarsjóðunum sætir furðu eftir framgöngu þeirra undanfarin ár og er skemmst er að minnast þess þegar áróðursmenn vogunarsjóða reyndu að hafa áhrif á niðurstöðu Alþingiskosninga, m.a. með blaðaauglýsingum,“ segir í fréttatilkynningunni. 

Frumvarpið var samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu í samvinnu við Seðlabanka Íslands. Í svari við fyrirspurn fréttastofu um hvort í því geti falist eða hægt sé að túlka þessa breytingu sem eftirgjöf við aflandskrónueigendur vísar ritstjóri Seðlaabankans í það að meginmarkmið bankans er að halda stöðugu verðlagi og draga úr efnahagssveiflum. 

alma's picture
Alma Ómarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi