Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Segja samninginn tryggja hagsmuni bæjarins

18.08.2016 - 11:43
Mynd með færslu
 Mynd: Google earth
Átta fulltrúar Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar og Vinstri grænna í bæjarstjórn Mosfellsbæjar telja að eðlilega hafi verið staðið að endurúthlutun lóðar í landi Sólvalla til fyrirtækisins MCPB. Það hafi verið gert í samræmi við lög, reglur og yfirlýsta stefnu bæjarins. Fulltrúarnir sendu frá sér sameiginlega yfirlýsingu um þetta í morgun. Fulltrúi Íbúahreyfingarinnar er sá eini sem leggst gegn undirritun samningsins.

Hagkvæmnin óumdeild

Fulltrúarnir átta segja að ávinningur bæjarins yrði mikill ef af framkvæmdunum yrði. Þeir segjast fullvissir um að samningurinn tryggi hagsmuni Mosfellsbæjar, hvernig sem fari. 

Undirritun samþykkt í gær

Bæjarráð Mosfellsbæjar samþykkti í gær að heimila bæjarstjóra að undirrita samning við fyrirtækið MCPB ehf. sem hyggst reisa einkarekna heilbrigðisstofnun og hótel í bænum. Fyrr í sumar samþykkti ráðið að úthluta lóð úr landi Sólvalla undir byggingu heilbrigðisstofnunarinnar. 

Illa undirbúin og í trássi við verkferla

Í bókun bæjarfulltrúa Íbúahreyfingarinnar eru vinnubrögð fulltrúa Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar gagnrýnd, þeir hafi tekið ákvörðun um að úthluta lóðinni í sumarfríi bæjarstjórnar, úthlutunin hafi verið illa undirbúin og í trássi við eðlilega verkferla, til dæmis hafi ekki verið haft samráð við heilbrigðisyfirvöld eða íbúa. Þá segir í bókuninni að við lestur samningsins vakni grunur um að þeir sem fengu landinu úthlutað hafi lítið meira en hugmynd á bak við sig. Það megi teljast með öllu óábyrgt af bæjarráði að afhenda óþekktum, erlendum aðilum verðmætar eignir sveitarfélagsins. Að lokum segir að samningurinn verði ekki skilinn öðruvísi en sem atvinnuþróunaraðstoð Mosfellsbæjar við óþekkta menn sem ekki hafi sýnt fram á fjárhagslega burði eða trúverðugleika til að standa í framkvæmdunum. Þá segir að framtakið sé ekki í samræmi við stefnu stjórnvalda í heilbrigðismálum: „Hér er um að ræða dýrmætt land í eigu Mosfellsbæjar sem látið er af hendi gegn vægu verði og fyrir starfsemi sem gengur þvert á vilja þjóðarinnar og stefnu stjórnvalda í heilbrigðismálum.“

Bókunin gangi gegn stefnu í heilbrigðismálum

Bæjarfulltrúi V-lista Vinstri grænna gerði þróun íslensk heilbrigðiskerfis einnig að umtalsefni í bókun sinni. „Í ljósi þeirrar umræðu sem verið hefur á síðustu vikum um málið hef ég fyllst efasemdum um það hvort núgildandi lög standi nægjanlega vel vörð um íslenskt heilbrigðiskerfi. Mikilvægt er í mínum huga að hér þróist ekki tvöfalt heilbrigðiskerfi og íslensku heilbrigðiskerfi stafi ekki ógn af starfsemi sem þessari,“ sagði í henni.  

Eðlilega að úthlutun staðið

Bæjarfulltrúar Samfylkingar telja að eðlilega hafi verið staðið að úthlutun lóðarinnar það hafi verið gert í takt við yfirlýsta stefnu bæjarins sem fram komi í aðalskipulagi sem allir flokkar hafi samþykkt á síðasta kjörtímabili. Í bókun flokksins kemur fram að landslög heimili starfsemi slíkra einkasjúkrahúsa og það sé Alþingis og yfirvalda heilbrigðismála að setja ramma um starfsemi sem best sé talin þjóna íslensku heilbrigðiskerfi, ekki einstakra sveitarfélaga í lóðaúthlutunum. Fram kemur að samningurinn tryggi fjárhagslega hagsmuni Mosfellsbæjar sama hvernig verkefnið fari hins vegar hefði mátt verja meiri tíma til þess að undirbúa samningsgerðina, sérstaklega með tilliti til þess hversu lítill tími hafi gefist til samráðs og í ljósi þess að bæjarstjórn og flestir embættismenn voru í sumarleyfi þegar úthlutunin var samþykkt, af því þurfi kjörnir fulltrúar að draga lærdóm. 

Fyrirvarar tryggi stöðu bæjarins

Í bókun bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokks er einnig minnt á að lóðin sé á samþykktu aðalskipulagi skilgreind fyrir heilbrigðisstarfsemi. Þá er fjallað um fyrirvara í samningnum og tekið fram að bærinn komi til með að hafa tekjur af verkefninu. MCPB sjái um allar nauðsynlegar framkvæmdir og beri allan kostnað af gatnagerð, aðkomuvegi og lagnavinnu. Samningurinn sé algjörlega áhættulaus fyrir bæinn. Fullyrðing Íbúahreyfingarinnar um að verið sé að afhenda land til þriðja aðila sem síðan geti veðsett það sé alröng. Hún sé einungis heimil með samþykki Mosfellsbæjar. Fram kemur í bókuninni að þó málið hafi verið unnið hratt í ráðinu þurfi að horfa til þess að áður hafi verið farið í samskonar vinnu sem unnin hafi verið með samþykki allra flokka í bæjarstjórn. 

Framkvæmdin falli vel að stefnu bæjarins

Í tilkynningu sem bærinn sendi frá sér í morgun er greint frá því að samningurinn feli í sér tvo fyrirvara af hálfu bæjarfélagsins, MCPB ehf. er gert að leggja fram viðskiptaáætlun með upplýsingum um fjármögnun og tímaáætlanir fyrir 1. desember 2017 og það þarf að hefja framkvæmdir innan tveggja ára frá undirritun samnings. Verði skilyrðin ekki uppfyllt er bænum heimilt að rifta samningnum. Í tilkynningunni segir að félagið hafi ekki leyfi til þess að fara í annars konar uppbyggingu á lóðinni og því sé ekki heimilt að veðsetja hana án samþykkis bæjarins. Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar, segir að bærinn sé afskaplega vel varinn ef fjárfestarnir reynast ekki traustsins verðir. Verulegir fjármunir séu í húfi fyrir Mosfellsbæ. Bærinn þurfi ekki að leggja út neinn kostnað vegna verkefnisins en fái 500 milljón króna gatnagerðargjöld og kaupréttur á lóðinni sé 180 milljónir. Fram kemur að aðkoma Mosfellsbæjar sé skipulagsmál, á aðalskipulagi sé lóðin skipulögð undir heilbrigðisstarfsemi. Ástæðan sé sú að sambærilegt verkefni hafi áður komið til umfjöllunar hjá bæjar- og skipulagsyfirvöldum í bænum. Árið 2010 var lóðinni úthlutað til fyrirtækisins Primacare sem hugðist setja þar á fót svipaða starfsemi.  Þá segir að framkvæmdin falli vel að stefnu bæjarins, Mosfellsbær sé heilsueflandi samfélag sem leggi meðal annars áherslu á heilsutengda ferðamennsku.  

 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV