Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Segja rússnesk yfirvöld á bak við tölvuárásina

02.07.2017 - 04:16
Mynd með færslu
 Mynd: EPA
Rússneska leyniþjónustan var á bak við tölvuárásina fyrr í vikunni sem lamaði starfsemi ýmissa fyrirtækja og stofnana víða um heim. Þetta fullyrða yfirvöld í Úkraínu og segjast hafa sannanir fyrir þessu. Rússar hafna ásökununum og segja að enginn fótur sér fyrir þeim.

Úkraína varð verst úti í árásunum, þar í landi raskaðist starfsemi margra banka, fjármálastofnana og annarra fyrirækja. Í yfirlýsingu frá úkraínsku leyniþjónustunni SBU segir að gögn sem menn þar á bæ hafi aflað sér frá alþjóðlegum vírusvarnarfyrirtækjum bendi eindregið til þess að rekja megi árásina til rússneskra yfirvalda.

Úkraínumenn grunaði strax að Rússar ættu hlut að máli en margir öryggissérfræðingar efuðust og bentu á að rússnesk fyrirtæki hefðu líka orðið fyrir barðinu á tölvuvírusnum, sem dulkóðaði gögn á sýktum tölvum og bauð eigendum þeirra að endurheimta þau gegn lausnargjaldi.

Nú segjast Úkraínumenn hafa sannanir, og að þeir telji jafnframt að lausnargjaldskrafan hafi í raun verið yfirvarp – tilgangurinn með árásinni hafi ekki verið að græða peninga heldur að valda ringulreið hjá úkraínskum fyrirtækjum og stofnunum og pólitískum óstöðugleika í landinu. Þessu til stuðnings bendir SBU á að í raun hafi ekki verið tæknilega mögulegt fyrir þá sem urðu fyrir árásinni að greiða lausnargjaldið.