Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Segja Norður-Kóreu auðga meira úran

30.06.2018 - 12:35
North Korea leader Kim Jong Un and U.S. President Donald Trump exchanged signed documents at the Capella resort on Sentosa Island Tuesday, June 12, 2018 in Singapore. (AP Photo/Evan Vucci)
 Mynd: AP
Í skýrslu bandarísku leyniþjónustunnar eru sagðar ótvríræðar sannanir fyrir því að Norður-Kórea sé að reyna að blekkja Bandaríkin. Í skýrslunni segir að þrátt fyrir sögulegan fund leiðtoga ríkjanna séu Norður-Kóreumenn enn að augða úran.

Eftir leiðtogafund Donalds Trump og Kim Jong-un sagði sá fyrrnefndi að ekki stafaði lengur kjarnorkuógn af Norður-Kóreumönnum. Í skýrslu bandarísku leynþjónustunnar kemur hinsvegar fram að Norður-Kórea hafi á síðustu mánuðum aukið auðgun úrans til framleiðslu á kjarnorku.

Fréttastofa NBC hefur eftir vel á annan tug embættismanna innan bandarísku leynisþjónustunnar að gervihnattamyndir sýni hraða uppbyggingu á einni helstu kjarnorkurannsóknarstöð Norður-Kóreu. Haft er eftir einum embættismanninum að engin merki séu um að framleiðslan hafi verið stöðvuð. Í raun séu ótvíræðar sannanir þess að Norður-Kóreumenn séu að reyna að blekkja yfirvöld í Washington.

Hefur ekki staðið við sitt

Þá hefur Kim ekki efnt tvö loforð, sem Trump sagði hann hafa gefið á fundinum, sem eru eyðilegging eldflaugaprófunarsvæðis og afhending jarðneskra leifa bandaríska hermanna sem féllu í Kóreustríðinu. Trump hefur hinsvegar gefið út að Bandaríkjamenn séu hættir við fyrirhugaða sameiginlega heræfingu með Suður-Kóreumönnum. Sameiginlegar heræfingar ríkjanna hafa farið verulega fyrir brjóstið á Norður-Kóreu.

Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, er sagður væntanlegur til Pyongyang í fyrri hluta júlímánaðar til að halda áfram viðræðum ríkjanna. Til stóð að hann myndi gera það innan við viku frá leiðtogafundinum, sem fram fór tólfta júní, en það hefur hefur dregist á langinn.