Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Segja mikilvægt að tilkynna um netsvindl

26.01.2018 - 19:49
epaselect epa05960672 A programer shows a sample of decrypting source code in Taipei, Taiwan, 13 May, 2017. According to news reports, a 'WannaCry' ransomware cyber attack hits thousands of computers in 99 countries encrypting files from
 Mynd: EPA
Tölvu- eða netglæpir færast mjög hratt í vöxt, segir framkvæmdastjóri norrænna samtaka sem vinna að netöryggi fjármálafyrirtækja. Hann og öryggisstjóri Landsbankans segja mjög mikilvægt að öll svona mál séu tilkynnt.

 

Fulltrúar Nordic Financial Cert, sem er samstarfsvettvangur norrænna fjármálafyrirtækja þar sem barist er gegn netglæpum, héldu fund með starfsfólki íslenskra banka og fjármálafyrirtækja. Landsbankinn og Arion banki eru í samtökunum, sem voru stofnuð á síðasta ári. Morten Tandle framkvæmdastjóri samtakanna segir netglæpi færast í aukana.

„Þeim fjölgar hratt og í Noregi sjáum við að hefðbundin svikastarfsemi færist hratt yfir í netheima. Lögreglan sér það einnig að glæpir færast frá hefðbundinni svindlastarfsemi og elta þar fjármunina, sem komnir eru á rafrænt form, yfir í netheima,“ segir Trandle.

Hann segir að árið 2016 hafi netglæpamenn reynt að blekkja norskt fyrirtæki til að greiða 500 milljónir norskra króna, sem er yfir sex og hálfur milljarður íslenskra króna. Þeim tókst að ná um hundrað milljónum áður en málið uppgötvaðist og hefur viðkomandi banki unnið að því að endurheimta féð. Svindlararnir beita ýmsum aðferðum, eins og tölvuforritum sem hafa áhrif á tölvukerfi fórnarlambsins, senda tölvupósta og ýmislegt fleira. Tandle segir banka stundum geta séð hvort eitthvað óeðlilegt sé á ferðinni.

„Þar sem bankarnir veita greiðsluþjónustuna og í greiðslum á rafrænu formi er mögulegt að greina mynstur í greiðslum; stundum er hægt að greina að slíkt sé í gangi og bankinn getur hjálpað til við að stöðva það. Og bankar gera það á Norðurlöndunum öllum.“

Öryggisstjóri Landsbankans segir mjög mikilvægt að tilkynna öll svona mál og ekki þurfi að skammast sín fyrir að hafa látið blekkjast. Hann segir samstarfið við Nordic Finance Cert mjög mikilvægt.

„Það mun auka öryggið fyrir Ísland mjög mikið og sérstaklega fyrir fjármálafyrirtækin vegna þess að þar erum við komin í samstarf við sérfræðinga sem þekkja til þessarar tegundar svindls. Við höfum ekki séð mikið af þessu á Íslandi, við erum rétt að sjá fyrsta skellinn koma á okkur og þess vegna er mikilvægt fyrir okkur að eiga þetta samstarf til framtíðar,“ segir Hákon L.  Akerlund öryggisstjóri Landsbankans.

 

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV