Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Segja Ísland bregðast börnum á flótta

11.02.2016 - 18:39
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Mynd: EPA / MTI
Þrjú börn á aldrinum 14 til 15 ára hafa dvalið á fjölskyldugangi móttökumiðstöðvar fyrir hælisleitendur í Hafnarfirði frá því í byrjun árs. Þau njóta ekki sérstakrar verndar og stopuls stuðnings ef einhvers. Sú meðferð sem börn á flótta njóta hér á landi er ekki alltaf í samræmi við lög, þau eru ekki tekin trúanleg og aðgengi þeirra að menntun og annarri grunnþjónustu er oft ábótavant.

Þetta segja þær Katrín Oddsdóttir, mannréttindalögfræðingur og Guðríður Lára Þrastardóttir, héraðsdómslögmaður og talsmaður hælisleitenda hjá Rauða krossi Íslands. Þær fluttu í dag erindi á málþingi Unicef og lögfræðisviðs Háskólans á Bifröst um hælisleitendur á barnsaldri. Katrín segir ekki við lögin að sakast, þau séu í sjálfu sér ágæt. 

„Það er til dæmis ítrekað áréttað í lögum að það eigi að hafa að leiðarljósi það sem er hagsmunum barns fyrir bestu, að það eigi að vera skammir tímar þegar börn eru umsækjendur en svo virðist framkvæmdin ekki ganga í takt við lögin þannig að við sjáum að lögin endurspegla miklu glæsilegri raunveruleika en var þegar ég var mest í þessum málum. Það er auðvitað farið að fenna aðeins yfir það því Rauði krossinn hefur tekið við þessu núna þannig að ég vona að þetta hafi allt breyst til batnaðar en ég heyri nú þó að það er enn mjög langur málsmeðferðartími hjá Kærunefndinni sem þýðir að börn og aðrir lenda í því að bíða mjög lengi eftir endanlegri niðurstöðu hér á landi, sem er gjörsamlega óþolandi.“

Barnavernd ábótavant

Í fyrra sóttu 79 börn um hæli hér á landi. Þar af voru 7 ein síns liðs. Guðríður segir að ekkert skýrt verklag sé viðhaft þegar barn kemur fylgdarlaust til landsins. Skýra þurfi ábyrgð  og verkefni þeirra stofnana sem koma að meðferð þessara barna betur. 

„Við höfum rekið okkur á að Útlendingastofnun og Barnavernd benda hvor á aðra þegar kemur að því að leysa úr málefnum þessara barna. Það þarf klárlega að skýra það, hvor ber ábyrgðina. Við höfum þurft að benda barnaverndaryfirvöldum á skyldur sínar gagnvart þessum börnum, að þær séu þær sömu og gagnvart öllum öðrum börnum á Íslandi.“

Hún telur að best væri ef ein barnaverndarnefnd sinnti fylgdarlausum börnum þar sem sú þjónusta sem þau njóta er mjög ólík eftir sveitarfélögum. Þetta sé hálfgert lotterí. 

„Þjónustan er mjög ólík eftir því hvort börnin sækja um hæli á Keflavíkurflugvelli eða hér í Reykjavík. Börn sem sækja um hæli á Keflavíkurflugvelli falla undir barnaverndaryfirvöld í Sandgerði, Vogum og Garði og þar hefur þjónustan verið til fyrirmyndar. Í Reykjavík hafa fjórtán og fimmtán ára gömul börn verið núna í einn og hálfan mánuð bráðum í móttökumiðstöð í Bæjarhrauni með fullorðnu fólki.“

Hópurinn samanstendur af þremur drengjum frá Afganistan og einum frá Albaníu. Farsímælandi sjálfboðaliði hittir afgönsku drengina í tíu klukkustundir á viku. Albanski drengurinn hefur að sögn Guðríðar ekki notið neins stuðnings þrátt fyrir að barnaverndaryfirvöld eigi lögum samkvæmt að veita hann og Rauði krossinn hafi ítrekað þrýst á þau að gera það. 

Iðjuleysi, félagsleg einangrun og hætta á misnotkun

Katrín og Guðríður segja börnin hafa lítið fyrir stafni, þau eigi á hættu að einangrast félagslega og verða fyrir misnotkun. 

„Ég held þetta geti haft mikil áhrif á þau. Við verðum að átta okkur á því að fólkið sem þarna raðast saman er flest búið að lenda í gífurlega íþyngjandi atburðum. Það er kannski með reynslu af því að hafa verið pyntað eða hafa horft upp á ættingja sprengda eða drepna og þetta er ekki eins og barnið sé bara einhvers staðar. Það er í mjög alvarlegum og ógnandi aðstæðum þar sem er fólk sem skilur ekki hvert annað er með ólíkan menningarbakgrunn og ástæður fyrir flótta. Það þarf ekki að vera eldflaugasérfræðingur til þess að vita það að börn mega ekki og eiga ekki að vistast með fullorðnum. Þetta höfum við á Íslandi margoft fengið skammir fyrir að gera til dæmis varðandi börn í áfengismeðferð og í fangelsum. Þetta á bara ekki að gera, hvað þá þegar börnin eru svona viðkvæm,“ segir Katrín. 

Guðríður Lára segir að komið hafi fyrir að fylgdarlaus börn hafi verið vistuð á meðferðarheimilinu Stuðlum til bráðabirgða.

„Það er auðvitað ekki góð lausn og ég vil taka það fram að það var í þessum tilvikum algert bráðabirgðaúrræði og bara í örfáa daga en það er samt sem áður ekki nógu gott. Þó þetta sé stuttur tími. Það verður að koma á fót neyðarúrræði fyrir fylgdarlaus börn þar sem er öryggisgæsla, sálrænn stuðningur og fagaðilar sem koma að málefnum þessara barna.“

Viðráðanlegur vandi

Guðríður Lára segir vandann viðráðanlegan og bendir á að í fyrra hafi tugþúsundir barna komið fylgdarlausar til Svíþjóðar. 

„Tölurnar tala sínu máli, þetta eru 79 börn. Það er hægt að dreifa þessu frekar á sveitarfélögin og þá held ég að það væri hægt að gera þetta miklu betur, ef fleiri sveitarfélög tækju við hælisleitendum. Við verðum líka að byggja upp ákveðið kerfi, áður en þetta verður óviðráðanlegt. Því það kemur að því að aukningin verður mun meiri en hún er nú þegar orðin. Það eru alls konar spár fyrir árið 2016, við vitum ekki hvað koma skal en við verðum að vera búin að byggja upp grundvallarstoðir áður en vandamálið verður það stórt að við ráðum ekki við það.“

Katrín tekur undir þetta. 

„Það þarf að móta stefnu á Íslandi, þar sem við segjum sem samfélag, hvert stefnum við í þessum málaflokki, hann er ekki að fara að hverfa, hann er þvert á móti að verða meira og meira áberandi vegna þess að staðan í heiminum er nú bara þannig. Við þurfum að setjast niður og ákveða nákvæmlega hvernig kerfið á að virka, hvernig eiga limirnir að dansa eftir höfðinu ef höfuðið veit ekki hvert það er að fara. Það sér hver maður að þetta gengur ekki. Það er ekki nóg að hafa einhvern fagurgala í lagabókstafnum, við verðum að segja hvernig við ætlum að útfæra þetta þannig að þetta virki.“

Gagnrýnar á tannrannsóknir

Katrín og Guðríður eru báðar gagnrýnar á þær aðferðir sem beitt er til þess að aldursgreina ungmenni sem koma hingað ein síns liðs og skilríkjalaus og segja að í raun sé gengið út frá því að fylgdarlaus börn ljúgi til um aldur. 

„Það sem er úr takti er til dæmis einhver innbyggð tortryggni sem ég skil ekki alveg hvar á sér lagastoð. Hún felst í því að það þarf alltaf að sannreyna aldur með íþyngjandi hætti í þessu tilfelli með tannrannsóknum, mér finnst það hljóma eitthvað svo fornaldarlegt að vera að rannsaka tennur í fólki sem er augljóslega mjög ungt í stað þess að trúa því að það sé undir átján ára aldri. Svo kemur yfirleitt niðurstaða þar sem stendur að það sé ekki hægt að útiloka að viðkomandi segi satt. Kerfið er samt í einhverjum baklás. Ég get ekki ímyndað mér mörg önnur tilfelli þar sem einstaklingur biður um ákveðinn rétt og hann er álitinn vera að ljúga þar til annað kemur í ljós. Yfirleitt væri kerfið mjög höktandi ef við ætluðum alltaf að gefa okkur að fólk væri að skrökva þar til við værum búin að komast að því með misgáfulegum, vísindalegum aðferðum að það segði satt. Það gengur ekki, við verðum að gefa okkur að fólk segi satt nema það sé augljóslega að ljúga, ef maðurinn lítur út fyrir að vera þrítugur þá trúir þú því ekki að hann sé átján ára.“

Segir Katrín. Guðríður vill að horfið verði algerlega frá því að beita þessari aðferð. 

„Þetta eru einfaldlega svo ónákvæmar rannsóknir, niðurstöðurnar eru ónákvæmar og vísindagrunnurinn er ekki nægilega traustur því samanburðarhóparnir sem eru notaðir eru af allt öðru þjóðerni en þau börn sem við erum að rannsaka.“

En hvað á þá að gera? 

„Í fyrsta lagi ætti að hafa það að meginreglu að trúa fólki þegar það kemur til landsins og segist vera undir átján ára aldri. Í öðru lagi er hægt að leggja ýmis þroskamöt fyrir þessa einstaklinga og líta á málið út frá heildstæðari og manneskjulegri hætti.“

Þá segir hún að skýran farveg skorti, vilji börnin kæra niðurstöðu aldursgreiningar. Túlkaþjónusta sé ekki veitt og að upplýsts samþykkis sé ekki alltaf aflað áður en rannsókn er gerð. 

Beðið eftir því að börn fullorðnist?

Katrín nefnir dæmi frá árinu 2013. Þá þurftu börn sem komu einsömul til landsins að bíða í eitt og hálft eftir aldursgreiningu og viðtali hjá Útlendingastofnun. Hún spyr sig hvort markmiðið sé að bíða með aldursgreiningu uns hælisleitendur fullorðnist og lagaákvæði um börn hætti að gilda um þá. Í dag gengur ferlið hraðar fyrir sig að sögn Guðríðar. Afgönsku drengirnir þrír sem komu hingað um jólin eru allir búnir að fara í aldursgreiningu og tveir þeirra, þeir sem töldust vera yngri en átján ára, hafa verið boðaðir í viðtal hjá Útlendingastofnun. 

 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV