Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Segja eldiskvíar eyðileggja fiskimið

05.03.2015 - 17:56
Mynd með færslu
 Mynd:
Smábátasjómenn við Eyjafjörð segja að fyrirhugað sjókvíaeldi í firðinum muni eyðileggja mikilvæg fiskimið. Áætluð staðsetning eldiskvía sé á veiðislóð þar sem línuveiðar hafi verið stundaðar í áratugi. Þá hafa þeir áhyggjur af áhrifum eldisins á lífríki Eyjafjarðar.

 

Í tillögu að matsáætlun fyrir 8000 tonna sjókvíaeldi Fjarðalax í Eyjafirði er fyrirhugað eldissvæði í og við svokallaðan Bakkaál. Þar er aðdjúpt og þorskur og ýsa leita í dýpið skammt undan landi.

Hilmar Stefánsson, trillukarl á Akureyri segir þetta mikilvæg línumið sem smábátar hafi sótt lengi. „Já, þetta eru mikilvæg fiskimið fyrir okkur að vetrinum. Sér í lagi þegar veðrið er vont og smábátaflotinn kemst ekki út úr firðinum. Þá eru bara bátar á þessu svæði frá öllum höfnum þar sem róið er við Eyjafjörð."

Segir Hilmar Stefánsson, trillukarl á Akureyri. Félag smábátaeigenda á þessu svæði hefur sent Fjarðalaxi athugasemdir við tillögu að matsáætlun og mótmælt harðlega framkomnum hugmyndum. Þær geti gengið harkalega á rétt þeirra sjómanna sem hafi nýtt umrædda veiðislóð áratugum saman. Þá lýsa þeir áhyggjum yfir því að stórfellt fiskeldi í Eyjafirði geti haft neikvæð áhrif á fiskistofna og lífríki í firðinum.

Og Hilmar segir þegar búið að takmarka veiðisvæði fyrir smábáta í Eyjafirði. „Það hefur verið hér kræklingarækt og tilraunafiskeldi bæði með þorsk og lax og það er klipið af þessum svæðum sem að smábátarnir hafa haldið sig á."