Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Segja eitrað fyrir köttum í Hveragerði

05.05.2018 - 16:19
Mynd með færslu
 Mynd: Helgi Halldórsson - Wikimedia Commons
Samtökin Villikettir á Suðurlandi greina frá því á Facebook síðu sinni að þrír kettir í sömu götu í Hveragerði hefðu veikst og einkenni bentu til eitrunar. Einn þeirra hefði drepist en hinir tveir væru mjög veikir.

„Þetta er allt á byrjunarreit því þetta gerðist í gærkvöldi,“ segir Helena Rafnsdóttir, sjálfboðaliði Villikatta á Suðurlandi. Smjördolla með túnfiski hafi fundist í sameiginlegum garði tveggja húsa og kettirnir komist í hana. Ekki sé búið að staðfesta að túnfiskurinn hafi verið eitraður en miðað við að einn af köttunum hafi drepist úr nýrnabilun þá séu allar líkur á því að eitrað hafi verið fyrir köttunum. „Það eru hundar í garðinum líka og tvö lítil börn búa þarna, þau hefðu getað farið í þetta,“ segir Helena. 

Helena segir að eigendur kattanna kæri málið og vilji fá það rannsakað. Lögreglu hafi verið afhent smjörvadollan í dag. Þá sé einnig búið að tilkynna málið til MAST. 

Helena segir að allt bendi til þess að eitrað hafi verið fyrir köttunum með frostlegi. „Það bendir allt til þess miðað við þjáningar dýranna. Eitrunin er sú sama og hefur verið í köttum áður sem hafa fengið frostlög.“

Helena segir að svona mál hafi síðast komið upp í bænum í fyrra. „Þetta er búið að vera svona í fimmtán ár og alltaf á sama staðnum. Laufskógar, Heiðmörk, Dynskógar, á þessu svæði.“

Helena segir að veiku kettirnir séu á Dýraspítalanum á Stuðlum. „Þeir eru mjög veikir. Það er allt gert til að reyna að hjálpa þeim.“

 

asrunbi's picture
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV