Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Segja Báru hafa fengið hlut frá óþekktri konu

29.04.2019 - 19:02
Mynd með færslu
 Mynd:
Þingmenn Miðflokksins hafa nokkrum sinnum fengið að skoða myndefnið sem til er af atburðarásinni á Klaustri. Í bréfum til Persónuverndar um miðjan þennan mánuð og aftur í síðustu viku nefna þeir til sögunnar óþekkta konu sem þeir segja að hafi komið inn á Klaustur og átt stutt erindi við Báru. Þessi kona hafi afhent Báru „ljósan hlut“ og tekið við einhverjum smágerðum hlut frá Báru.

Þetta kemur fram í ákvörðun stjórnar Persónuverndar sem hafnaði í dag kröfu lögmanns þingmannanna fjögurra um frekari gagnaöflun í málinu. Nú er beðið eftir því að stjórn Persónuverndar úrskurði endanlega um málið en hún hittist reglulega á fundum, yfirleitt í lok hvers mánaðar.

Þingmennirnir vildu meðal annars fá upplýsingar um greiðslur til Báru og símtöl og smáskilaboð til hennar. Persónuvernd taldi sér ekki heimilt að fá slíkar upplýsingar þar sem málið snerist ekki um fyrirtæki heldur Báru sjálfa.

Í úrskurði Persónuverndar kemur fram að þingmennirnir hafi fengið að skoða myndefnið af Klaustri um miðjan þennan mánuð og svo aftur í síðustu viku. 

Mynd: Skjáskot / RÚV
Auður Tinna Aðalbjarnardóttir, lögmaður Báru, í kvöldfréttum.

Þann 16. apríl sendi lögmaður þingmannanna Persónuvernd bréf þar sem bent er á að á tilteknum tíma hafi óþekkt kona komið inn á Klaustur og gengið ákveðið inn í innra rými staðarins og rakleitt, að því er virðist, til Báru. Tuttugu sekúndum síðar gangi hún rösklega út af staðnum með einhvern smáhlut í vinstri vasa.

Þá segir í bréfinu að samanburður myndefnis og hljóðefnis hafi leitt í ljós að Bára handfjatli iðulega símtæki sitt án þess að nokkrir skruðningar heyrist á hljóðupptökunni. Það telja þingmennirnir staðfesta að Bára hafi notast við sérstakan búnað sem og að aðgerðin hafi verið skipulögð rækilega í samstarfi við aðra. Því sé brýnt að þeirra gagna sem óskað hafi verið eftir verði aflað.

Myndefnið var skoðað aftur átta dögum seinna og í tölvupósti til Persónuverndar er reynt að varpa enn frekara ljósi á hlutverk „óþekktu konunnar“.  Í bréfinu segir lögmaður þingmannanna að fjórar mínútur hafi liðið frá því að Bára yfirgaf Klaustur þar til hún aflæsti bíl sínum eins og blikkljós hans sýni. Leiða megi líkum að því að þessar mínútur hafi Bára notað til skrafs og ráðagerða við samverkamenn sína utan staðarins.

Síðan kemur óþekkta konan aftur við sögu. Hún gangi fram hjá Klaustri á tilteknum tíma og hafi í hægri hendi ljósan mun „mögulega möppu, tölvu eða spjaldtölvu.“ Hún komi síðan inn á staðinn en hafi þá fært ljósa muninn úr hægri hendi í þá vinstri „líklega til að geta notað hægri hönd til að opna útidyr staðarins.“ Á upptökunum sjáist að konan eigi erindi við Báru inni á staðnum, gangi síðan út en hafi ekki lengur ljósa muninn með sér. Hún haldi hins vegar vinstri hnefanum krepptum og „virðist mögulega halda þar á einhverjum smágerðum hlut sem Bára virðist hafa fengið henni.“

Lögmaður Báru hefur mótmælt því í bréfum til Persónuverndar að einhver hafi fengið Báru til að taka upp umræddar samræður. Í bréfum lögmannsins til stofnunarinnar hefur orðalagið „ýmsar dylgjur“ verið notað um það sem hefur komið fram í bréfum frá lögmanni þingmannanna.

Persónuvernd hefur haft Klausturmálið til umfjöllunar síðan um miðjan desember. Þá sendi lögmaður fjögurra þingmanna Miðflokksins stofnuninni bréf þar sem þess var krafist að rannsakað yrði hver hefði staðið að upptöku á samtali sex þingmanna á vínveitingastaðnum Klaustri. Málið var sett á bið eftir að þingmenn Miðflokksins fóru með málið fyrir héraðsdóm og síðar Landsrétt þar sem kröfum þeirra var hafnað.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV