Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Segja ásakanir WOW air fáránlegar

04.07.2012 - 16:09
Mynd með færslu
 Mynd:
Forsvarsmenn Iceland Express segja ásakanir um hleranir fáránlegar. Eins og greint hefur verið frá hafa WOWair og KFS, Keflavík Flight Service,sem þjónustar WOWair á Keflavíkurflugvelli, kært Iceland Express til lögreglu og segja félagið hafa aflað sér upplýsinga um farþegafjölda Wowair með hlerunum

Forsvarsmenn Iceland Express boðuðu til blaðamannafundar vegna þessa í dag. Þar kom fram að tetrarásin sem KFS notar til að þjónusta WOWair er í eigu Iceland express og var áður notuð til að að þjóna því flugfélagi. Iceland Express hefur  látið loka fyrir aðgang starfsmanna KFS (Keflavík Flight Services) að rásinni hjá Neyðarlínunni, vegna ásakana forsvarsmanna KFS og WOWAir .  

Segja að forstjóri Wow air hafi vitað að samskiptarásin væri í eigu Iceland Express

Forstjóri WOWair kvartaði undan því við forstjóra Iceland Express að starfsmenn Iceland Express fylgdust með því hversu fáir farþegar flygju með Wow Air og taldi þær upplýsingar fengnar með því að hlusta á samskiptarás sem er í eigu Iceland Express. Forstjóri WOWair var þá upplýstur um að samskiptarásin væri í eigu Iceland Express og að upplýsingar um fjölda farþega Wow Air væru fengnar með því að starfsmenn Iceland Express á Keflavíkurflugvelli teldu inn og út úr flugvélum WOWair.

Forsvarsmenn Iceland Express segja að KFS hafi þjónað Iceland Express fram í nóvember á síðasta ári og þá fengið aðgang að Tetra rásum sem eru á leyfi Iceland Express hjá Neyðarlínunni. KFS starfi nú á bráðabirgðaleyfi frá Flugmálastjórn Íslands í þjónustu sinni við WOWair. Það hafi greinilega ekki komið sér upp eigin samskiptarásum í Tetrakerfinu og því notað samskiptarás Iceland Express undanfarnar vikur.

Hljómar eins og lygasaga

„Það hljómar því eins og lygasaga þegar KFS og WOWair segjast hafa kært Iceland Express fyrir að hlera samskipti á rás sem Iceland Express er með úthlutaða frá Neyðarlínunni“, segir í tilkynningu frá Iceland Express. Félagið hafi ekki heyrt af kærunni fyrr en fjölmiðlar greindu frá henni og undrist að einungis einn fjölmiðill skuli hafa haft fyrir því að bera málið undir Iceland Express áður en greint var frá meintri kæru í fréttum.