Segja að Trump sé landi sínu hættulegur

13.11.2017 - 02:08
Mynd með færslu
 Mynd: AP & EPA
Tveir fyrrverandi embættismenn í bandarísku leyniþjónustunni sögðu í dag að Donald Trump Bandaríkjaforseti væri landi sínu hættulegur enda væri hætta á að Vladímír Pútín Rússlandsforseti „leiki á hann“.  Pútín þvertekur fyrir að Rússar hafi skipt sér af bandarísku forestakosningunum í fyrra og Trump sagðist trúa honum þegar hann neitaði sök. Hann sagði að Pútín væri móðgaður vegna ásakana um slíkt og hefur ekki sparað fúkyrðin um bandarísku leyniþjónustuna, sem rannsakar meint afskipti Rússa. 

Fyrrum embættismennirnir tveir, James Clapper, fyrrverandi yfirmaður njósnamála, og John Brennan, fyrrverandi yfirmaður CIA, saka Trump um að reyna að draga úr trúverðugleika leyniþjónustunnar með því að fjargviðrast út í hana, kalla þá illum nöfnum og draga niðurstöður í efa. Þetta sögðu þeir í sjónvarpsviðtali á CNN. Þá skorist Trump undan því að láta Pútín svara fyrir sig með því að taka ekki skýra afstöðu með leyniþjónustunni og spyrja Pútín út í afskipti Rússa með skýrum hætti.

Þótt umfang afskiptanna sé rannsakað er það mat stofnananna NSA, CIA og FBI að Pútín hafi staðið fyrir aðgerðum til að hafa áhrif á bandarísku forsetakosningarnar, Trump í vil. „Pútín er staðráðinn í að grafa undan kerfinu okkar, lýðræði okkar og öllu lýðræðislegu ferli,“ sagði Clapper í viðtali við CNN. Þeir Clapper og Brennan eru sammála um að Rússlandsógnin sé raunveruleg og augljós.

Sjá frétt Guardian hér.

Matthías Tryggvi Haraldsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi