Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Segja að 337 hafi særst í Katalóníu

01.10.2017 - 13:47
epa06238031 A couple with a Catalonian flag near Spanish police in the Placa Sant Jaume, or the Town Hall Square, in Barcelona, Spain 01 October 2017. Catalonia is holding an independence referendum which has been declared illegal by the Spanish
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Yfirvöld í Katalóníu segja að 337 hafi særst í átökum við lögreglu sem reyndi að koma í veg fyrir að hægt yrði að kjósa í þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði héraðsins. Spænsk stjórnvöld hafa heitið því að gera allt, sem í þeirra valdi stendur, til að stöðva atkvæðagreiðsluna. Borgarstjóri Barselóna hefur hvatt forsætisráðherra Spánar til að segja af sér vegna ásakana um ofbeldisverk lögreglumanna í dag.

Lögreglumenn á vegum spænskra yfirvalda hindruðu í morgun að fólk gæti farið á kjörstað og hafa gert bæði kjörseðla og kjörkassa upptæka. Hörðustu átökin hafa verið í Barselóna þar sem lögreglan hefur meðal annars skotið gúmmíkúlum á kjósendur. Á samfélagsmiðlum hafa birst ótal myndbönd sem sýna þegar skerst í odda milli kjósenda og óeirðarlögreglu.

Enrico Millo, fulltrúi spænsku ríkisstjórnarinnar í Katalóníu, sagði í morgun að atkvæðagreiðslan um sjálfstæði Katalóníu væri farsi. Hann skoraði á Carles Puigdemont, forseta heimastjórnar Katalóníu að aflýsa henni.

Á vef BBC kemur fram að 337 hafi særst í átökunum og voru þær tölur staðfestar af bæði talsmönnum heimastjórnarinnar og heilbrigðisyfirvalda. Spænska innanríkisráðuneytið sagði í yfirlýsingu til fjölmiðla að 11 lögreglumenn hefðu slasast.  Soraryoa Saenz de Santamaria, aðstoðarforsætisráðherra Spánar, varði aðgerðir lögreglunnar og sagði að hún hefði sinnt starfi sínu af fagmennsku. 

Óttar Norðfjörð, rithöfundur, býr í Barselóna, og hann fór á kjörstað í morgun ásamt konu sinni sem er spænsk en Óttar mátti sjálfur ekki kjósa. Hann sagði stemninguna hafa verið skrýtna í borginni. Friðsamt hefði verið á þeim kjörstað sem hann sótti og þau hefðu ekki séð eina einustu lögreglu. Hann sagði í færslu á Facebook-síðu sinni að þetta væri án efa skrýtnasti dagurinn sem hann hefði upplifað á þeim tíu árum sem hann hefði verið búsettur á Spáni.  Fólk stæði í röðum fyrir framan kjörstaði með regnhlífar og syngi „Við viljum kjósa“.

Birgitta Jónsdóttir, fráfarandi þingmaður Pírata, er einnig stödd í Barselóna en hún er hluti af kosningaeftirliti héraðsstjórnar Katalóníu. Hún birti þetta myndskeið frá einum kjörstaðnum í morgun.

Nicola Sturgeon, forsætisráðherra skosku heimastjórnarinnar, sagðist á Twitter-síðu sinni hafa miklar áhyggjur vegna frétta og myndskeiða frá Katalóníu. „Engu skiptir hvaða skoðun menn hafa á atkvæðagreiðslunni. Við eigum að fordæma ofbeldi og hvetja Spán til að hverfa frá þessum aðgerðum sínum áður en einhver slasast alvarlega. Leyfið fólkinu að kjósa í friði.“

Barcelona og Las Palmas mætast klukkan 14:15 í spænsku úrvalsdeildinni. Forráðarmenn Barselóna óskuðu eftir því að leiknum yrði frestað en þegar forystumenn spænsku úrvalsdeildarinnar höfnuðu þeirri beiðni ákvað liðið að leikurinn skyldi spilaður fyrir luktum dyrum. 

Leikmenn Las Palmas verða með spænska fánann á treyjum sínum til að sýna spænskum stjórnvöldum stuðning.  „Við hefðum getað staðið hjá og ekki sagt neitt eða sýnt stuðning okkar í verki. Við ákváðum hið seinna og viljum með því láta í ljós hvar okkar stuðningur liggur,“ sagði í yfirlýsingu frá félaginu.

Fréttin hefur verið uppfærð

Mynd: EPA-EFE / EPA
freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV