Segist hafa verið líkt við fjöldamorðingja

05.12.2018 - 09:13
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, sagði í Bítinu á Bylgjunni í morgun að hann hafi verið kallaður öllum illum nöfnum á sínum pólitíska ferli. Hann sagðist hafa langa reynslu af að vinna með fólki sem hafi meðal annars kallað hann ljótan, feitan og geðveikan, í sumum tilfellum opinberlega. Þá hafi hann verið kallaður einræðisherra og verið líkt við fjöldamorðingja.

Hér má hlusta á viðtalið við Sigmund Davíð og Önnu Kolbrúnu Árnadóttur, þingmann Miðflokksins, í heild sinni.

„Ég hef sagt frá því áður að konan mín rifjaði það upp fyrir mér að ég hefði stundum þurft að elta hana út úr svona samkvæmum vegna þess að henni misbauð,“ sagði Sigmundur Davíð. „Í gær vorum við að rifja upp þegar við vorum með gamla flokknum mínum í samkvæmi á Hótel Sögu. Ég sat við annað borð og hún sat við borð og hlustaði á samtöl fólks. Það endaði með því að hún fór fram í anddyri og sat þar ein þangað til að sameiginleg vinkona okkar kom til hennar. Þannig að ég vona að þessi bitra reynsla okkar verði ekki bara til þess að við lögum hlutina hjá okkur heldur að við getum orðið fyrirmynd og að þessi kúltúr almennt breytist.“

„Grunnur að einhverju góðu“

Sigmundur Davíð var spurður að því í viðtalinu hvernig hann teldi að sér kæmi til með að ganga að vinna með þeim þingmönnum sem talað var illa um á Klausturbarnum. 

„Ég held að það muni ganga vegna þess að ég hef það langa reynslu að vinna með fólki sem hefur sagt mjög ljóta hluti um mig. Kallað mig ljótan, feitan, geðveikan.“

Opinberlega?

„Í sumum tilvikum opinberlega. Í sumum tilvikum á fundum. Kallað mig einræðisherra, líkt mér við fjöldamorðingja. Sagt ótrúlega rætna hluti í einkasamtölum. Í aðdraganda flokksþings hjá okkur á sínum tíma var hringt um kjördæmið mitt til þess að bera út sögur um mig sem ég fékk að sjálfsögðu að heyra í mörgum tilvikum. Heyrt brandara sem eru sagðir um mig í öðrum flokkum sem margir hverjir eru neðan beltis og mjög svartir. En það er eðli þessa vinnustaðar að þar verður fólk að vinna saman sem er ekki alltaf sammála, og hefur jafnvel lent í illindum.“

Aðspurður sagðist Sigmundur Davíð ekki ætla að segja af sér vegna Klausturmálsins, heldur trúi hann því að menn geti notað mistök til þess að bæta sig.

„Og ef við tökum fótboltasamlíkingu; sá sem er búinn að skora sjálfsmark hefur mestan hvata af öllum leikmönnunum að bæta sig og gera betur. Og þetta er gríðarlega sterkur hvati sem við höfum til þess að bæta okkur og fara yfir liðinn veg. Við þingmennirnir höfum einsett okkur að þetta verði til þess að við verðum til fyrirmyndar í allri framkomu, í því hvernig við tölum við fólk, hvernig við tölum um fólk, hvernig við högum okkur í tengslum við hluti eins og skemmtanir. Og vonandi kemur út úr því eitthvað gott því mistök geta annað hvort brotið mann niður og orðið til þess að menn gefist upp, eða þá að það er hægt að snúa þeim upp í að verða eitthvað gott, grunnur að einhverju góðu.“