Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Segist ekki hafa ástæðu til að segja af sér

12.03.2019 - 12:39
Mynd:  / 
„Ég mun ekki gera það. Ég hef ekki ástæðu til þess,“ segir Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra, aðspurð hvort hún hyggist segja af sér vegna dóms Mannréttindadómstóls Evrópu í Landsréttarmálinu. Hún segir að starfsemi Landsréttar sé ekki í uppnámi þó svo að dómstóllinn hafi ákveðið að fresta út vikuna öllum málum með þeim dómurum sem skipaðir voru í réttinn þó svo að þeir væru ekki metnir meðal fimmtán hæfustu umsækjenda.

„Það er sjálfsagt og eðlilegt að [Landsréttur] skoði þennan dóm sjálfstætt,“ segir Sigríður um ákvörðun Landsréttar. Hún telur dóminn þó ekki hafa áhrif á stöðu dómaranna og telur að þeir geti starfað áfram.

Sigríður segir að niðurstaðan komi á óvart, bæði sér og þeim sérfræðingum sem starfað hafa fyrir dómsmálaráðuneytið og ríkislögmann. „Hún er líka algjörlega fordæmalaus þessi niðurstaða.“ Dómsmálaráðherra segir athyglisvert að Mannréttindadómstóllinn hafi klofnað í afstöðu til málsins. Fimm af sjö dómurum töldu íslenskra ríkið brotlegt en tveir dómarar skiluðu minnihlutaáliti þar sem þeir töldu meirihlutann ganga of langt. Sigríður segir athyglisvert að dómararnir sem skila minnihlutaáliti telji að meirihlutinn hafi látið pólitískar deilur á Íslandi um dómaraskipunina hafa áhrif á niðurstöðu sína.

Íhuga að skjóta dómi til yfirréttar Mannréttindadómstólsins

„Ég árétta að íslenskir dómstólar hafa komist að þeirri niðurstöðu að dómararnir séu löglega skipaðir,“ segir Sigríður. „Nú verður þessi dómur hins vegar skoðaður. Ég og sérfræðingar bæði í dómsmálaráðuneytinu og ríkislögmaður skoðum þetta á næstu dögum með yfirveguðum hætti. Þótt það sé mat sérfræðinga við fyrstu sýn sem leiðir til þess að skoða hvort ekki sé rétt að skjóta þessum dómi til yfirréttarins. Það kemur fram í áliti minnihlutans að þetta muni hafa áhrif um alla Evrópu ef þetta stæði svona.“

Fréttin hefur verið uppfærð.