Segist aldrei hafa óskað eftir stuðningi

04.12.2018 - 11:53
Mynd með færslu
 Mynd:
Árni Þór Sigurðsson sendiherra og fyrrverandi alþingismaður úr röðum VG segist aldrei hafa óskað eftir stuðningi frá forystu eigin flokks við skipan sína í sendiherrastöðuna. Þetta kemur fram í ítarlegri stöðufærslu frá Árna Þór á Facebook.

Á upptökunum frá Klaustri sem birtar voru í síðustu viku heyrist Gunnar Bragi Sveinsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, segja frá því að hann hafi skipað Árna Þór sendiherra til að draga athyglina frá þeirri ákvörðun að skipa Geir Haarde sendiherra í Bandaríkjunum. Árni Þór er sendiherra í Finnlandi. Gunnar Bragi sagði á Klaustri að hann hefði rætt skipan Geirs við fulltrúa allra flokka.

„Ég sá það að ég gæti ekki skipað Geir einn. Það yrði of þungur biti fyrir þingið og alla. Það sem ég gerði var að skipa Árna Þór sem sendiherra,“ sagði Gunnar. Hann bætti því við að VG hefðu getað orðið brjálaðir en Katrín Jakobsdóttir, formaður flokksins, ekki sagt orð.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra greindi frá því í stöðufærslu á Facebook í gær að hún hefði vissulega gert athugasemd opinberlega þegar Geir var skipaður í sendiherrastöðuna.   

„Þegar ákvörðun um skipan mína lá fyrir greindi ég formanni VG frá því að ég myndi láta af þingmennsku og hefja störf í utanríkisráðuneytinu. Í framhaldinu greindi ég einnig þingflokki VG frá því. Ýmsir í mínum flokki gagnrýndu mig fyrir þá ákvörðun, það var gagnrýni sem ég hafði skilning á og tók nærri mér, en ég var engu að síður ósammála. Það er sannfæring mín að sanngjarnast sé að meta fólk út frá störfum sínum, árangri og umsögnum samstarfsfólks. Því mati kvíði ég ekki, “ segir Árni Þór á Facebook.