Tveir af átta flokkum á Alþingi eru andvígir því að þriðji orkupakkinn verði samþykktur, Flokkur fólksins og Miðflokkurinn. Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins, spurði Bjarna Benediktsson, fjármálaráðherra, um þriðja orkupakkann í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi, sér í lagi í ljósi ályktana Landsfundar Sjálfstæðisflokksins um yfirráð yfir íslenskum raforkumarkaði.
„Nú er það þannig að við erum ekki bundin raforkustefnu, orkumálastefnu Evrópusambandsins heldur högum þeim málum eftir eigin óskum á Íslandi,“ sagði Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra á Alþingi í morgun.
„Hvers vegna í ósköpunum hafa menn áhuga á því að komast undir boðvald þessara stofnana, og ég spyr, já hvers vegna í ósköpunum?“ spurði Þorsteinn. Því svaraði fjármálaráðherra á þá leið að í gangi væru ákveðin þingmál sem fjalla um orkumálefni. „Þau taka ekki yfirráð yfir raforkumálum Íslendinga af okkur og flytja þau til Brüssel, það er ekki að gerast.“