Segir yfirráð yfir raforku ekki tapast

02.05.2019 - 12:20
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra. - Mynd: Freyr Arnarson / RÚV
Fjármálaráðherra segir þriðja orkupakkann ekki fela í sér framsal á valdi til Brüssel eða að yfirráð yfir íslenskum raforkumarkaði verði færð annað. Þetta kom fram í máli ráðherra á þingfundi sem nú stendur yfir. 

Tveir af átta flokkum á Alþingi eru andvígir því að þriðji orkupakkinn verði samþykktur, Flokkur fólksins og Miðflokkurinn. Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins, spurði Bjarna Benediktsson, fjármálaráðherra, um þriðja orkupakkann í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi, sér í lagi í ljósi ályktana Landsfundar Sjálfstæðisflokksins um yfirráð yfir íslenskum raforkumarkaði.  

„Nú er það þannig að við erum ekki bundin raforkustefnu, orkumálastefnu Evrópusambandsins heldur högum þeim málum eftir eigin óskum á Íslandi,“ sagði Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra á Alþingi í morgun.

„Hvers vegna í ósköpunum hafa menn áhuga á því að komast undir boðvald þessara stofnana, og ég spyr, já hvers vegna í ósköpunum?“ spurði Þorsteinn. Því svaraði fjármálaráðherra á þá leið að í gangi væru ákveðin þingmál sem fjalla um orkumálefni. „Þau taka ekki yfirráð yfir raforkumálum Íslendinga af okkur og flytja þau til Brüssel, það er ekki að gerast.“

johannav's picture
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV
dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi