Segir WOW bera að útvega annað flugfar

08.10.2018 - 06:30
Mynd með færslu
 Mynd: Ásgeir Tómasson - RÚV
Flugfélaginu WOW air ber að bjóða farþegum val um annað flug á áfangastað eða endurgreiðslu á farmiða vegna flugs til þeirra þriggja borga sem fyrirtækið hefur nú ákveðið að aflýsa flugi til, samkvæmt upplýsingum frá Samgöngustofu.

Flugfélagið tilkynnti á dögunum að það hafi aflýst flugi til Stokkhólms, Edinborgar og San Fransisco í vetur, frá 5. nóvember fram í byrjun apríl, vegna hagræðingar í rekstri. Í tilkynningunni kom einnig fram að farþegum, sem hafi keypt flugmiða til þessara borga, yrði boðið að fá endurgreitt eða að gera breytingar á ferðatilhögun sinni án þess að greiða breytingargjald.

Þórhildur Elínardóttir, samskiptastjóri Samgöngustofu, segir að með þessu sé ekki verið að uppfylla reglur um réttindi flugfarþeganna. Fram komi í 8. grein ESB reglugerðar 261/2006 að þegar flugi sé aflýst beri flugfélagi að bjóða farþega val um nýtt flug á lokaákvörðunarstað eða endurgreiðslu á farmiða. „Í þeim tilfellum þar sem félagið flýgur ekki sjálft lengur á viðkomandi áfangastað þá þarf það að útvega far með öðrum flugrekanda,“ segir Þórhildur.

Fréttastofa greindi á dögunum frá því að hjón sem höfðu keypt ferð til Edinborgar af WOW, flug og gistingu, hafi aðeins getað fengið flugfarið endurgreitt en ekki hótelgistinguna. Í þeirri frétt kom fram að flugfélagið geti ekki endurgreitt gistingu þar sem samstarfsaðili fyrirtækisins hafi fengið greitt fyrir hana. Haft var eftir Svanhvíti Friðriksdóttur, upplýsingafulltrúa WOW, í fréttinni að flugfélagið ætli þó að gera sitt besta til að aðstoða þá farþega sem keyptu gistingu í gegnum heimasíðu WOW við að fá gistinguna endurgreidda. Miðað við upplýsingar frá Samgöngustofu ættu hjónin ekki að þurfa að hætta við ferðina, heldur fá boð frá WOW um flug til Edinborgar með öðru flugfélagi.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi