Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Segir vísbendingar um betri tíma í minkarækt

30.01.2019 - 22:05
Mynd með færslu
 Mynd:
Eigandi stærsta minkabús landsins ætlar að þrauka eitt ár í viðbót í þeirri von að markaðir fyrir minkaskinn taki við sér á ný. Eftir þriggja ára samfelldan taprekstur er staða minkaræktar hér á landi sú versta í tuttugu ár.

Nú er að hefjast fjórða árið í röð þar sem verulegt tap er á framleiðslu minkaskinna og skinnaverð er langt undir framleiðsluverði. Eftir mikla fækkun á stuttum tíma eru nú 12 minkabú eftir í landinu.

Stofninn minnkað um 40% á tveimur árum

„Á síðustu tveimur árum hafa fallið út 10 framleiðendur og dýrastofninn hefur minnkað um næstum 40 prósent,“ segir Einar Eðvald Einarsson, minkabóndi á Syðra-Skörðugili í Skagarirði og formaður Sambands íslenskra loðdýrabænda.

Mönnum nauðugur einn kostur að hætta 

Tvö af stærstu búum landsins hættu framleiðslu í desember og búið á Syðra-Skörðugili er það stærsta sem eftir er. Einar segir menn einfaldlega ekki þola svo langan samfelldan taprekstur. „Og á endanum bara geta menn ekki lengur greitt þann kostnað sem þarf að borga og bankarnir vilja þá ekki hjálpa heldur áfram. Þannig að þá er mönnum nauðugur einn kostur að hætta.“

Mynd með færslu
 Mynd:

Skinnaverðið lækkað úr 12.500 í 3.100

Þegar skinnaverð reis sem hæst árið 2013 fengust 12.500 krónur að meðaltali fyrir hvert skinn. Þá var framleiðslukostnaðurinn 6.000 krónur á skinn. Í dag fást 3.100 krónur fyrir skinnið og kostnaðurinn er nokkurnveginn sá sami. Offramleiðsla í heiminum, þegar skinnaframleiðsla tvöfaldaðist á fjórum árum, felldi skinnaverð. Sterk króna bætti þar ekki úr skák.

Sannfærðir um að stutt er í betri tíma

Á mánudag lauk skinnauppboði í Kaupmannahöfn þar sem íslenskir bændur selja sínar afurðir. Uppboðið gekk ekki vel, segir Einar, en uppboðshaldarinn telji betri tíma fram undan. Birgðir á heimsvísu fari hratt minnkandi á meðan salan haldi sér. „Þeir sannfærðu okkur um það, að það væri orðið stutt í betri tíma. Við þyrftum bara að þrauka aðeins lengur,“ segir hann. En slíkur viðsnúningur taki tíma og það sé alls ekki víst að illa stödd bú geti þraukað öllu lengur. „Auðvitað er ég hálfhræddur um að það nái ekki allir að lifa. En ég vona að það nái allir sem nú eru að lifa af, að það komi uppsveifla og fylgi þá með inn í hana.“

Ætlar að prófa að þrauka eitt ár enn og sjá svo til

„Ég er búinn að taka ákvörðun um það að við ætlum að keyra árið 2019,“ segir Einar. „Veðja á það að þessir markaðsfræðingar séu að segja okkur rétta hluti. Og það taki við betri tímar núna seinna á árinu og árið 2020 verði svo ennþá betra.“ Og eins og staðan sé í dag sé ekki hægt að hugsa lengra í búrekstrinum. En hann ætli að prófa að þrauka eitt ár enn. „Við erum búin að vera með þennan rekstur hér á Skörðugili...þetta er 35. árið í minkarækt. Þannig að við höfum prófað tímana tvenna. En þessi niðursveifla er klárlega orðin ein sú allra erfiðasta sem við höfum nokkurn tímann farið í gegnum,“ segir Einar.