Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Segir VG höfuðandstæðing Sjálfstæðisflokksins

Mynd: RÚV / RÚV
„Það hefur ekkert breyst í því að við erum, að okkar mati, höfuðandstæðingar Sjálfstæðisflokksins í íslenskum stjórnmálum og við viljum beita okkur fyrir annars konar vinnubrögðum,“ segir Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, sem er á leið í formlegar stjórnarmyndunarviðræður við Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk.

Katrín sat fyrir svörum í Kastljósi í kvöld og var þar spurð hvernig ákvörðun um að ganga til þessara viðræðna samrýmdist stórum orðum ýmissa fulltrúa Vinstri grænna í aðdraganda kosninganna um spillingu, leyndarhyggju og fleira, sem flestum var beint að Sjálfstæðisflokknum.

„Vinstristefna, fyrir mér, snýst ekki um það að skilgreina mig út frá Sjálfstæðisflokknum – að ég sé svo mikið á móti Sjálfstæðisflokknum. Hún snýst um að leggja á borðið annars konar sýn um það hvernig við getum gert okkar samfélag betra og þá þarf maður auðvitað að þora að standa við stóru orðin og vera reiðubúin að vinna með þeim sem vilja vinna með manni að því,“ sagði Katrín.

Sýn Katrínar á skattamál getur ekki verið allsráðandi

Baldvin Þór Bergsson, stjórnandi Kastljóss, spurði Katrínu hvernig Vinstri græn og Sjálfstæðisflokkur ætluðu að samræma ólíka sýn flokkanna á skattamál og skattkerfisbreytingar.

„Ég hef auðvitað mína sýn á skattamál. Ég er með 17% fylgi þannig að ég get ekki ætlast til þess að hún sé allsráðandi, sama í hvaða ríkisstjórnarsamstarfi ég er. Við erum búin að sjá það hér á undanförnum áratug að það er stöðugt verið að gera skattkerfisbreytingar og fara svo fram og til baka í þeim málum, það er verið að gera skattkerfisbreytingar í fullkominni andstöðu við þá sem þar eiga undir – ég nefni til að mynda hækkun virðisaukaskatts á bækur, svo dæmi sé tekið. Við verðum að fara að vinna þessi mál öðruvísi.“

Hægt er að horfa á viðtalið við Katrínu í heild sinni í spilaranum hér að ofan.