Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Segir Vestfirðingum haldið í herkví

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokks í Norðvesturkjördæmi, hefur kallað eftir aukafundi í atvinnuveganefnd. Tilefnið er niðurstaða úrskurðunarnefndar umhverfis- og auðlindamála en hún felldi í gær úr gildi tvö rekstrarleyfi sem Matvælastofnun hafði gefið út til laxeldis í opnum sjókvíum í Patreksfirði og Tálknafirði.

„Ég óska eftir að kallaðir verði fyrir fundinn fulltrúar frá Umhverfisráðuneytinu og Sjávarútvegsráðuneytinu og fulltrúar frá Matvælastofnun. Þetta er grafalvarleg staða sem komin er upp. Vestfirðingum er haldið í herkví, nóg er samt. Hér lítur helst út að kerfin og stofnanir tali ekki saman. Kerfin rekast á og atvinnuuppbygging situr hjá á meðan,“ segir Halla.

Úrskurðunarnefnd umhverfis- og auðlindamála felldi í gær úr gildi rekstrarleyfi sem Matvælastofnun hafði gefið út til laxeldis í opnum sjókvíum í Patreksfirði og Tálknafirði. Matvælastofnun hafði veitt Fjarðarlaxi og Arctic Sea leyfi til að framleiða samanlagt 17.500 tonn af laxi árlega. 

Náttúruverndarsamtök og veiðiréttarhafar á Vestfjörðum kærðu útgáfu rekstrarleyfanna. Kærendur töldu að umhverfismat fyrir framkvæmdunum væru ófullnægjandi þar sem ekki væri fjallað um aðra valkosti. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að matsskýrslur sem fyrirtækin lögðu fram væru ekki lögmætur grundvöllur fyrir ákvörðun um útgáfu rekstrarleyfis. Þá kom fram að mat á umhverfisáhrifum í tengslum við fiskeldið í opnum sjókvíum hafi ekki verið framkvæmt nægilega nákvæmlega.

ingvarthor's picture
Ingvar Þór Björnsson
Fréttastofa RÚV