Segir úthlutun styrkja hafa verið faglega

05.03.2014 - 19:26
Mynd með færslu
 Mynd:
Fyrrverandi atvinnuvegaráðherra segir ferli fyrrverandi ríkisstjórnar við úthlutun styrkja til verkefna hafa verið faglegt. Formaður húsafriðunarnefndar vill ekki upplýsa hvaða tillögur hann lagði til við forsætisráðherra vegna úthlutunar styrkja.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sagði í Kastljósi í gær að úthlutun styrkja til verkefna hafi verið á sama hátt og í tíð fyrri ríkisstjórnar. Ekki hafi verið um sérstakt umsóknarferli að ræða heldur voru ákvarðanir teknar meðal annars með áherslu á atvinnusköpun og verndun menningarminja. Þá hafi verið leitað álits fagaðila frá Þjóðminjasafninu, Minjastofnun og húsafriðunarnefnd, sem fyrri ríkisstjórn gerði ekki. Þá var heldur ekkert formlegt umsóknarferli en ríkisendurskoðandi hefur gagnrýnt það þar sem gæta þurfi jafnræðis þegar kemur að úthlutun opinbers fjár.

„Í fyrsta lagi voru mótaðar skýrar verklagsreglur um meðferð þessa fjár, strax á árinu 2012. Í öðru lagi voru verkefnin yfirleitt undirbúin í fagráðuneytunum, stundum í samstarfi tveggja ráðuneyta eða fleiri. Í þriðja lagi gengu þannig undirbúnar tillögur til ráðherranefndar um atvinnumál, í henni sátu fjórir ráðherrar, og hún fjallaði um öll verkefni af þessu tagi, allar fjárveitingar,“ segir Steingrímur J. Sigfússon.

Faghópur forsætisráðherra fundaði þann 20. desember, daginn eftir að fjáraukalög voru samþykkt. Þremur dögum síðar var send út tilkynning til þeirra sem höfðu hlotið styrk. Magnús Skúlason, formaður húsafriðunarnefndar, segir að hann hafi komið með tillögur að styrkjum eins og Sigmundur Davíð hafi beðið hann um. Að auki hafi hann séð aðrar tilllögur hjá forsætisráðherranum.

Magnús segir flest verkefnin hafa fengið faglega umfjöllun í húsafriðunarnefnd. Hann vill þó ekki upplýsa hvaða verkefni hann lagði til við ráðherra. „Nei, mér finnst það ástæðulaust. Það voru tillögur að verðugum verkefnum sem höfðu farið í gegn um húsafriðunarnefnd og ég sé enga ástæðu til að tíunda þær tillögur.“

Ráðuneytið veitti til að mynda fimm milljóna króna styrk til Fljótsdalshéraðs til að laga friðaðar veghleðslur. Fjármagnið kom eftir SMS-samskipti Sigmundar Davíðs og Stefáns Boga Sveinssonar, oddvita bæjarstjórnar. Stefán Bogi segir í samtalið við fréttastofu að Sigmundur hafi bent honum á fjármuni hjá ráðuneytinu og þá hafi hann nefnt veghleðslurnar. Ekki hafi verið óskað formlega eftir fjármunum, en tíu dögum síðar hafi bréf borist þar sem fram kom að fimm milljónir hafi verið veittar.

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi