Segir upptöku Báru undirbúna en ekki tilviljun

30.03.2019 - 06:50
Mynd með færslu
 Mynd:
Upptökur úr öryggismyndavélum á Klausturbar sýna aðra atburðarás en þá sem Bára Halldórsdóttir lýsti frá kvöldinu 20. nóvember. Morgunblaðið hefur þetta eftir Bergþóri Ólasyni, einum sexmenninganna sem sátu á barnum þetta umrædda kvöld. Hann segir myndefnið benda til þess að framganga Báru hafi verið undirbúin, en ekki fyrir tilviljun eins og hún hafi sagt.

Hann segir Báru hafa gengið beint til verks. Ekki hafi gefist tími fyrir hana til þess að hafa ofboðið orðbragð þingmannanna áður en hún hljóðritaði samtal þeirra. Bergþór telur Báru hafa verið með upptökutæki auk símans. Hann segir að reynt verði að komast að því hvort Bára hafi átt samverkamenn varðandi upptökurnar, það væri til dæmis ekki eðlilegt ef fjölmiðill hafi skipulagt þessa aðgerð.

Upptökurnar sem hafa verið skoðaðar eru frá klukkan 19:29, þriðjudagskvöldið 20. nóvember. Þá sést Bára sitja í bíl sínum fyrir utan Klausturbar. Bílljósin sjást slökkna klukkan 19:41 og Bára gengur þá inn á barinn. Þaðan fer hún svo klukkan 23:30, en myndskeiðinu lýkur klukkan 23:52.

Bergþór segir lögmann fjögurra þingmanna Miðflokksins sem sátu á Klausturbar hafa óskað eftir upptökum frá því fyrir og eftir þann tíma sem þessar upptökur ná til. Auk Bergþórs sátu flokkssystkin hans, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Gunnar Bragi Sveinsson og Anna Kolbrún Árnadóttir. Þá sátu Ólafur Ísleifsson og Karl Gauti Hjaltason, þáverandi þingmenn Flokks fólksins, með þeim um stund. Þeir hafa nú gengið í Miðflokkinn eftir að þeir voru reknir úr Flokki fólksins í kjölfar Klausturmálsins.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi